Velkomin heim

Sviðssetning
Íslenski dansflokkurinn

Sýningarstaður
Borgarleikhúsið, Stóra svið

Frumsýning
Febrúar 2009

Tegund verks
Danssýning

Febrúarsýning ÍD er að jafnaði einn stærsti dansviðburður ársins. Að þessu sinni er sýningin samstarfsverkefni þriggja höfunda sem vinna hana í nánu samstarfi við dansara flokksins. Dansarar ÍD eru þekktir hérlendis sem erlendis fyrir hæfni sína, kraft, ástríðu, dansgleði og leikræna tjáningu og fá áhorfendur að njóta alls þessa í sýningunni.

Danshöfundarnir þrír eru Cameron Corbett, Katrín Hall og Peter Anderson. Það er því óhætt að lofa mögnuðu sjónarspili, stórkostlegum dansi og lifandi tónlist. Um heilskvöldsýningu er að ræða.

Danshöfundar
Cameron Corbett
Katrín Hall
Peter Anderson

Dansarar
Aðalheiður Halldórsdóttir
Cameron Corbett
Emilía Benedikta Gísladóttir
Frank Fannar Pedersen
Guðmundur Elías Knudsen
Gunnlaugur Egilsson
Hjördís Lilja Örnólfsdóttir
Katrín Á. Johnson
Katrín Ingvadóttir
Lovísa Ósk Gunnarsdóttir
Steve Lorenz

Leikmynd
Aðalsteinn Stefánsson

Búningar
Agnieszka Baranowska
Filippía Elísdóttir

Lýsing
Aðalsteinn Stefánsson

Tónlist
Frank Hall
Pétur Ben
Sigtryggur Baldursson

Hljóðmynd
Sigurvald Ívar Helgason

Cameron Corbett fæddist í Portland í Oregonfylki Bandaríkjanna. Þar nam hann dans við Jefferson High School of the Performing Arts. 18 ára að aldri hlaut hann viðurkenningu the National Foundation for Advancement in the Arts í Bandaríkjunum en síðar hlaut hann styrk til náms við North Carolina School of The Arts. Síðar var hann sóló-dansari við Tanz-Forum Köln undir stjórn Jochen Ulrich.

Cameron var dansari við Íd frá 1997-2002 og hóf aftur störf hér árið 2006. Hann hefur dansað í söngleikjum fyrir bæði Leikfélag Reykjavíkur og Þjóðleikhúsið. Hann var danshöfundur fyrir Hýbýli vindanna (LR) og Hafið Bláa sem sýnt var í Austurbæ. Cameron hefur einnig kennt við Listdansskóla Íslands, Listaháskólann og við einkaskóla á Íslandi, í Þýskalandi og í Bandaríkjunum. Hann er einn af stofnendum Reykjavík Dance Festival.  Meðal dansverka Cameron eru Solo sem hlaut tilnefningu til dansverðlauna Kölnar og Kippa/Six-pack fyrir Transdance Europe, flutt í Reykjavík, París og Caen í Frakklandi.

Katrín Hall byrjaði ung sinn feril sem dansari hjá Íslenska dansflokknum. Hún tók þátt í langflestum uppfærslum flokksins frá 1981-1988. Á þeim tíma dansaði Katrín mörg burðarhlutverk og vann með fjölmörgum danshöfundum erlendum sem innlendum. Hún tók einnig þátt í söngleikjum, óperu og leiksýningum. Árið 1986 stofnaði Katrín danshópinn Pars pro toto ásamt Láru Stefánsdóttur dansara og danshöfundi. Sama ár setti Pars pro toto upp sitt fyrsta dansverk „En andinn er veikur“ sem sýnt var í Hlaðvarpanum og unnið í samvinnu við Láru og Guðjón Pedersen leikstjóra.

Frá 1988-1996 starfaði Katrín í Þýskalandi. Hún var sólódansari við Tanzforum, dansflokk óperuhússins í Köln, undir listrænni stjórn Jochen Ulrich. Jochen samdi fjölda dansverka þar sem Katrín var gjarnan í burðarhlutverkum. Hún dansaði aðalhlutverk í Hnotubrjótnum, Pétri Gaut, Yermu, Schritt fur Schritt, Verlobung in St. Domingo og Get up early svo fáein séu nefnd. Auk þess vann Katrín með fjölda annarra danshöfunda eins og Louis Falco, Jennifer Mueller og Richard Wherlock. Katrín ferðaðist og sýndi víða um heim með Tanzforum.

Árið 1996 tók Katrín við listrænni stjórn Íslenska dansflokksins. Á þeim tíma hefur flokkurinn sýnt verk eftir marga af þekktustu danshöfundum Evrópu. Hún hefur auk þess beitt sér fyrir því að koma íslenskum danshöfundum á framfæri. Katrín hefur skapað flokknum sérstöðu og sterkan prófíl sem nútímadansflokkur í háum gæðaflokki. Undir hennar stjórn hefur Íslenski dansflokkurinn ferðast víða og sýnt í borgum eins og Avignon, Prague, Bologna, Vilnius, Bergen, Helsinki, Ottowa, Toronto, Linz, Salisbury, Ludwigshafen og Saarlois.

Katrín hefur samið dansverkin NPK, Milli heima og Stingray fyrir Íslenska dansflokkinn. Dansverkið Brunnar samdi hún árið 2000 að beiðni Orkuveitu Ríkisins og árið 2004 samdi hún verk fyrir Listahátíð í Reykjavík og árið 2006 samdi Katrín verkið Instant Smile fyrir leikhúsið í Darmstadt í Þýskalandi. Einnig hefur Katrín gert dansmyndina Burst með Reyni Lyngdal sem var hluti af Moving North, samnorræns verkefnis. Stuttmyndin hefur verið sýnd um allan heim og verkefnið hlotið verðlaun. Árið 2000 var Katrín sæmd Fálkaorðunni fyrir störf sín í þágu listdans á Íslandi.

Peter Anderson er fæddur og uppalinn í London og stundaði hann þar nám við Brunel Háskólann þaðan sem hann útskrifaðist árið 1991. Síðustu 15 árin hefur Peter starfað sem dansari með dansflokkum víða um Evrópu en er hann nú fastráðinn hjá Íslenska Dansflokknum.

Peter er fjölhæfur listamaður  á sviðum dans-, myndlistar og kómedíu og hefur hann hlotið verðlaun fyrir leikhúsverk sín, viðurkenningu sem danshöfundur og einnig sett upp myndlistarsýningar. Hann er bæði stofnandi og framkvæmdarstjóri spuna-grínhópsins Watch My Back og hefur hann einnig skapað dansstuttmyndir. Peter hefur verið fulltrúi Íslands í erlendum danslistaverkefnun, haft yfirumsjón með danskennslu í strákaverkefni dansflokksins og starfað sem gestakennari hjá Listaháskóla Íslands.

 

ImageImageImage