Gríman
Íslensku sviðslistaverðlaunin, voru fyrst veitt sumarið 2003. Þau eru veitt árlega, við hátíðlega athöfn í einu af stóru leikhúsunum og í beinni útsendingu í Sjónvarpinu.
Sviðslistasamband Íslands stendur fyrir hátíðinni sem skal vera glæsileg, fagmannleg og skemmtileg uppskeruhátíð. Grímuhátíðin er samstarfsverkefni félaga, samtaka og stofnana sem starfa innan vébanda sambandsins.
Á hátíðinni eru sviðsverk og útvarpsverk verðlaunuð og listamönnum veittar viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur í sviðslistum á liðnu leikári.
„Gríman – Íslensku sviðslistaverðlaunin“ er skráð vöruheiti í eigu Sviðslistasambands Íslands.
Verðlaunagripurinn sem er hannaður og smíðaður af Sigurði G. Steinþórssyni gullsmíðameistara, er kennimerki hátíðarinnar og eign Sviðslistasambands Íslands skv. samningi við höfund gripsins.