Harry og Heimir – með öðrum morðum

Harry og Heimir – með öðrum morðum

Sviðssetning
Leikfélag Reykjavíkur

Sýningarstaður
Borgarleikhúsið, Litla svið

Frumsýning
12. september 2009

Tegund verks
Leiksýning

Hin undurfagra og leyndardómsfulla Diana Klein birtist dag einn á skrifstofu einkaspæjaranna Harry og Heimis. Eiginmaður hennar hefur gufað upp á sjálfa brúðkaupsnóttina og hún grátbiður þá um aðstoð. Harry heillast af Díönu, Heimi sárlangar í fiskisúpu en saman reyna þeir að leysa gátuna. Leitin dregur þá til Transylvaníu þar sem þeir slást við illmennið Doktor Frank N. Steingrímsson, takast á við skrímslið Rúrik og berjast við að bera fram nafn þorpsins Trawitzenfirkopfendorf.

image-19

Hver er Diana Klein og er hún eins fögur og hún lítur út fyrir að vera? Hvaðan kemur öll þessi fiskisúpa? Hvar er húfan mín? Má maður spögulera? Og hver er með minnsta heila í Heimi? Hér er á ferðinni sannkallað háspennuverk um einkaspæjarana röggsömu, Harry Rögnvalds og Heimi Schnitzel, sem nutu fádæma vinsælda á dagskrá Bylgjunnar árið 1988 en koma nú saman á sviði í fyrsta sinn.

image-18

Höfundar
Karl Ágúst Úlfsson
Sigurður Sigurjónsson
Örn Árnason

Leikstjórn
Karl Ágúst Úlfsson
Kristín Eysteinsdóttir
Sigurður Sigurjónsson
Örn Árnason

Leikarar í aðalhlutverkum
Karl Ágúst Úlfsson
Sigurður Sigurjónsson
Örn Árnason

Leikmynd
Snorri Freyr Hilmarsson

Búningar
Snorri Freyr Hilmarsson

Leikgervi
Sigríður Rósa Bjarnadóttir

Lýsing
Freyr Vilhjálmsson

Hljóðmynd
Ólafur Örn Thoroddsen

– – – – – – – – – – – –

Leikfélag Reykjavíkur er elsta leikfélag sem starfað hefur óslitið á Íslandi og er jafnframt eitt elsta starfandi menningarfélag landsins. Leikfélagið var  stofnað 11. janúar 1897 er tveir hópar áhugamanna um leiklist sameinuðust í eitt félag. Helsti hvatinn að stofnun félagsins var bygging Iðnaðarmannahússins við Tjörnina.

Allir stofnendur Leikfélags Reykjavíkur voru áhugamenn þ.e. höfðu annað aðalstarf og fóru því æfingar og allt starf leikhússins fram  utan venjulegs vinnutíma. Meðlimir Leikfélagsins voru allir meðábyrgir í rekstri félagsins og voru skuldbundnir samkvæmt lögum félagsins að greiða ákveðna upphæð ef til gjaldþrots kæmi. Ákvarðanir voru lýðræðislegar varðandi verkefnaval og almennan rekstur. Leikarar fengu greitt  kvöldkaup fyrir hvert sýningarkvöld en höfðu jafnan grunntekjur úr sínu aðalstarfi.

Borgarleikhúsið var opnað í október 1989 og voru við það tækifæri frumsýndar tvær nýjar leikgerðir á sögum Halldórs Laxness, Ljósi heimsins á Litla sviðinu og Höll sumarlandsins á Stóra sviðinu.

Borgarleikhúsið er stærsta og best búna leikhús landsins, 10.400 m2 að stærð. Að auki telst það í hópi best búnu leikhúsa Evrópu. Í upphafi voru sviðin tvö, Stóra sviðið og Litla sviðið. Stóri salurinn er blævængslaga með einu, hallandi gólfi og tekur 529 manns í sæti, en sá litli er sexhyrndur með breytilegri sætaskipan og tekur að jafnaði um 170 manns í sæti, en hefur tekið hátt á þriðja hundrað gesta. Í október 2001 var þriðja sviðinu bætt við, Nýja sviðinu, sem í dag er fullkominn ,,svartur kassi“ sem býður uppá mikla möguleika hvað varðar rýmisnýtingu. Sæti eru fyrir 300 áhorfendur. Þriðja hæðin, kaffileikhúsið; lítill salur við mötuneyti starfsmanna, hefur auk þess verið notaður við ýmsar uppákomur, fyrirlestra og sýningar en salurinn tekur um 70 manns í sæti.

Frá opnun Borgarleikhússins hefur Leikfélag Reykjavíkur staðið fyrir metnaðarfullu starfi. Hjarta leikhússins er leikhópurinn sem flutti stoltur frá ,,gamla miðbænum“  í ,,nýja miðbæinn“ og hefur að jafnaði staðið fyrir öflugri en jafnframt fjölbreyttri verkefnaskrá ár hvert. Að auki hefur Leikfélagið tryggt annarri menningarstarfsemi aðstöðu í húsinu, boðið til sín gestaleikjum og tekið þátt í innlendu sem erlendu samstarfi. Borgarleikhúsið er eins og Iðnó forðum, menningarmiðja í Reykjavík.