Góðir Íslendingar
Góðir Íslendingar
Sviðssetning
Leikfélag Reykjavíkur
Sýningarstaður
Borgarleikhúsið, Nýja svið
Frumsýning
15. janúar 2009
Tegund verks
Leiksýning
Kreppan krefst nýrra leikmuna. Lopapeysur í stað jakkafata, frystikistur í stað vínkæla, tjaldvagn í stað utanlandsferða, slátur í stað lífrænt ræktaðra innbakaðra fashana.Undir yfirborðinu býr sannarlega þjóð sem á sér ýmis leyndarmál. Sjálfsmynd íslensku þjóðarinnar birtist í húsunum sem við byggðum og bílunum sem við keyrðum en líka í því hvernig við sviðsetjum okkur á veraldarvefnum og í raunveruleikanum. Nú eru þessar sviðsetningar undir smásjánni, það sem áður þótti merki um velgengni vekur nú hjá okkur óhug.
Þeir Hallur, Jón Atli og Jón Páll halda áfram þaðan sem frá var horfið í sýningunni Þú ert hér sem fékk verðskuldaða athygli á fjölum Borgarleikhússins í fyrra. Sýningin hlaut fimm Grímutilnefningar, meðal annars sem sýning ársins og leikverk ársins. Þeir félagar rýna í íslenskan samtíma og hefur sú könnun aldrei verið brýnni en einmitt nú þegar þjóðfélaginu hefur verið snúið á hvolf. Hárbeitt samtímaleikhús unnið upp úr óritskoðuðum heimildum úr lífi Íslendinga.
Höfundar
Hallur Ingólfsson
Jón Páll Eyjólfsson
Jón Atli Jónasson
Leikstjórn
Hallur Ingólfsson
Jón Páll Eyjólfsson
Jón Atli Jónasson
Leikarar í aðalhlutverkum
Bergur Ingólfsson
Halldór Gylfason
Hallur Ingólfsson
Jón Páll Eyjólfsson
Jón Atli Jónasson
Leikkonur í aðalhlutverkum
Dóra Jóhannsdóttir
Halldóra Geirharðsdóttir
Leikmynd
Hallur Ingólfsson
Jón Páll Eyjólfsson
Jón Atli Jónasson
Búningar
Stefanía Adolfsdóttir
Leikhópurinn
Lýsing
Björn Bergsteinn Guðmundsson
Leikfélag Reykjavíkur er elsta leikfélag sem starfað hefur óslitið á Íslandi og er jafnframt eitt elsta starfandi menningarfélag landsins. Leikfélagið var stofnað 11. janúar 1897 er tveir hópar áhugamanna um leiklist sameinuðust í eitt félag. Helsti hvatinn að stofnun félagsins var bygging Iðnaðarmannahússins við Tjörnina.
Allir stofnendur Leikfélags Reykjavíkur voru áhugamenn þ.e. höfðu annað aðalstarf og fóru því æfingar og allt starf leikhússins fram utan venjulegs vinnutíma. Meðlimir Leikfélagsins voru allir meðábyrgir í rekstri félagsins og voru skuldbundnir samkvæmt lögum félagsins að greiða ákveðna upphæð ef til gjaldþrots kæmi. Ákvarðanir voru lýðræðislegar varðandi verkefnaval og almennan rekstur. Leikarar fengu greitt kvöldkaup fyrir hvert sýningarkvöld en höfðu jafnan grunntekjur úr sínu aðalstarfi.
Borgarleikhúsið var opnað í október 1989 og voru við það tækifæri frumsýndar tvær nýjar leikgerðir á sögum Halldórs Laxness, Ljósi heimsins á Litla sviðinu og Höll sumarlandsins á Stóra sviðinu.
Borgarleikhúsið er stærsta og best búna leikhús landsins, 10.400 m2 að stærð. Að auki telst það í hópi best búnu leikhúsa Evrópu. Í upphafi voru sviðin tvö, Stóra sviðið og Litla sviðið. Stóri salurinn er blævængslaga með einu, hallandi gólfi og tekur 529 manns í sæti, en sá litli er sexhyrndur með breytilegri sætaskipan og tekur að jafnaði um 170 manns í sæti, en hefur tekið hátt á þriðja hundrað gesta. Í október 2001 var þriðja sviðinu bætt við, Nýja sviðinu, sem í dag er fullkominn ,,svartur kassi“ sem býður uppá mikla möguleika hvað varðar rýmisnýtingu. Sæti eru fyrir 300 áhorfendur. Þriðja hæðin, kaffileikhúsið; lítill salur við mötuneyti starfsmanna, hefur auk þess verið notaður við ýmsar uppákomur, fyrirlestra og sýningar en salurinn tekur um 70 manns í sæti.
Frá opnun Borgarleikhússins hefur Leikfélag Reykjavíkur staðið fyrir metnaðarfullu starfi. Hjarta leikhússins er leikhópurinn sem flutti stoltur frá ,,gamla miðbænum“ í ,,nýja miðbæinn“ og hefur að jafnaði staðið fyrir öflugri en jafnframt fjölbreyttri verkefnaskrá ár hvert. Að auki hefur Leikfélagið tryggt annarri menningarstarfsemi aðstöðu í húsinu, boðið til sín gestaleikjum og tekið þátt í innlendu sem erlendu samstarfi. Borgarleikhúsið er eins og Iðnó forðum, menningarmiðja í Reykjavík.