Fjölskyldan – ágúst í Osage-sýslu

Fjölskyldan – ágúst í Osage-sýslu

Sviðssetning
Leikfélag Reykjavíkur

Sýningarstaður
Borgarleikhúsið, Stóra svið

Frumsýning
30. október 2009

Tegund verks
Leiksýning

Ættfaðirinn hverfur sporlaust og fjölskyldan safnast saman á óðalinu. Smám saman tekur hvarfið á sig skýrari mynd en um leið leita gömul leyndarmál og heitar ástríður upp á yfirborðið. Fjölskyldumeðlimir hafa hver sinn djöful að draga og við svo eldfimar aðstæður tekur atburðarásin óvænta stefnu.

image

Safarík og stórbrotin fjölskyldusaga sem gagnrýnendur hafa kallað fyrstu klassík 21. aldarinnar. Sýning sem minnir í senn á dramatísk leikverk Tennessee Williams og kaldhæðni Woody Allen. Tónlist KK fullkomnar leikhúsveisluna.

Tracy Letts (1965) er eitt fremsta leikskáld Bandaríkjanna nú um stundir. Hann starfar við hið víðfræga Steppenwolf-leikhús í Chicago sem leikskáld, leikstjóri og leikari. Fyrsta leikrit hans, Killer Joe, var sýnt hér í Borgarleikhúsinu. Fjölskyldan – ágúst í Osagesýslu hlaut þrenn eftirsóttustu leiklistarviðurkenningar Bandaríkjamanna: Drama Desk, Pulitzer og loks Tony-verðlaunin sem besta leikrit ársins 2008. Leikritið hefur verið sýnt óslitið á Broadway frá frumsýningu og fjöldi fremstu leikhúsa heimsins hefur tekið það til sýninga.

image-1

 

Höfundur
Tracy Letts

Þýðing
Sigurður Hróarsson

Leikstjóri
Hilmir Snær Guðnason

Leikkonur í aðalhlutverkum
Margrét Helga Jóhannsdóttir
Sigrún Edda Björnsdóttir

Leikarar í aukahlutverkum
Ellert A. Ingimundarson
Hallgrímur Ólafsson
Pétur Einarsson
Rúnar Freyr Gíslason
Theodór Júlíusson
Þröstur Leó Gunnarsson

Leikkonur í aukahlutverkum
Guðrún Bjarnadóttir
Hanna María Karlsdóttir
Jóhanna Vigdís Arnardóttir
Nína Dögg Filippusdóttir
Unnur Ösp Stefánsdóttir

Leikmynd
Börkur Jónsson

Búningar
Margrét Einarsdóttir

Lýsing
Björn Bergsteinn Guðmundsson

Tónlist
KK – Kristján Kristjánsson

Hljóðmynd
Jakob Tryggvason

Söngvari
KK – Kristján Kristjánsson

image-2

 

Leikfélag Reykjavíkur er elsta leikfélag sem starfað hefur óslitið á Íslandi og er jafnframt eitt elsta starfandi menningarfélag landsins. Leikfélagið var  stofnað 11. janúar 1897 er tveir hópar áhugamanna um leiklist sameinuðust í eitt félag. Helsti hvatinn að stofnun félagsins var bygging Iðnaðarmannahússins við Tjörnina.

Allir stofnendur Leikfélags Reykjavíkur voru áhugamenn þ.e. höfðu annað aðalstarf og fóru því æfingar og allt starf leikhússins fram  utan venjulegs vinnutíma. Meðlimir Leikfélagsins voru allir meðábyrgir í rekstri félagsins og voru skuldbundnir samkvæmt lögum félagsins að greiða ákveðna upphæð ef til gjaldþrots kæmi. Ákvarðanir voru lýðræðislegar varðandi verkefnaval og almennan rekstur. Leikarar fengu greitt  kvöldkaup fyrir hvert sýningarkvöld en höfðu jafnan grunntekjur úr sínu aðalstarfi.

Borgarleikhúsið var opnað í október 1989 og voru við það tækifæri frumsýndar tvær nýjar leikgerðir á sögum Halldórs Laxness, Ljósi heimsins á Litla sviðinu og Höll sumarlandsins á Stóra sviðinu.

Borgarleikhúsið er stærsta og best búna leikhús landsins, 10.400 m2 að stærð. Að auki telst það í hópi best búnu leikhúsa Evrópu. Í upphafi voru sviðin tvö, Stóra sviðið og Litla sviðið. Stóri salurinn er blævængslaga með einu, hallandi gólfi og tekur 529 manns í sæti, en sá litli er sexhyrndur með breytilegri sætaskipan og tekur að jafnaði um 170 manns í sæti, en hefur tekið hátt á þriðja hundrað gesta. Í október 2001 var þriðja sviðinu bætt við, Nýja sviðinu, sem í dag er fullkominn ,,svartur kassi“ sem býður uppá mikla möguleika hvað varðar rýmisnýtingu. Sæti eru fyrir 300 áhorfendur. Þriðja hæðin, kaffileikhúsið; lítill salur við mötuneyti starfsmanna, hefur auk þess verið notaður við ýmsar uppákomur, fyrirlestra og sýningar en salurinn tekur um 70 manns í sæti.

Frá opnun Borgarleikhússins hefur Leikfélag Reykjavíkur staðið fyrir metnaðarfullu starfi. Hjarta leikhússins er leikhópurinn sem flutti stoltur frá ,,gamla miðbænum“  í ,,nýja miðbæinn“ og hefur að jafnaði staðið fyrir öflugri en jafnframt fjölbreyttri verkefnaskrá ár hvert. Að auki hefur Leikfélagið tryggt annarri menningarstarfsemi aðstöðu í húsinu, boðið til sín gestaleikjum og tekið þátt í innlendu sem erlendu samstarfi. Borgarleikhúsið er eins og Iðnó forðum, menningarmiðja í Reykjavík.