Eilíf óhamingja
Eilíf óhamingja
Sviðssetning
Hið lifandi leikhús
Leikfélag Reykjavíkur
Sýningarstaður
Borgarleikhúsið, Litla svið
Frumsýning
27. mars 2010
Tegund verks
Leiksýning
Við erum stödd í óræðu herbergi. Fimm manneskjur eru komnar saman. Ólíkar manneskjur en samt allar tengdar á einhvern hátt. Dr. Matthildur fær þetta fólk til meðferðar. Hún setur skýrar leikreglur og krefst fullkomins heiðarleika, fullkomins gegnsæis. Allt verður að koma fram – það má ekki leyna neinu. Heimurinn fylgist með og vill læra af okkur. Matthildur kemur af stað uppgjöri og það kemst enginn út – fyrr en allt liggur á borðinu!
Það er skylda leikhússins að kryfja og rannsaka og það er það sem Andri Snær Magnason og Þorleifur Örn Arnarson hafa verið að gera síðasta árið. Þeir ræddu við fleiri en þúsund Íslendinga, og eftir standa fimm persónur sem lifna við á sviðinu. Óhætt er að segja að útkoman er eitthvað sem ekki má missa af.
Höfundar
Andri Snær Magnason
Þorleifur Örn Arnarsson
Leikstjóri
Þorleifur Örn Arnarsson
Dramatúrg
Símon Örn Birgisson
Leikkona í aðalhlutverki
Sólveig Arnarsdóttir
Leikarar í aukahlutverkum
Atli Rafn Sigurðarson
Guðjón Þorsteinn Pálmarsson
Orri Huginn Ágústsson
Leikkona í aukahlutverki
Sara Dögg Ásgeirsdóttir
Leikmynd
Drífa Freyju-Ármannsdóttir
Búningar
Judith Amalía Jóhannsdóttir
Lýsing
Kjartan Þórisson
Hljóðmynd
Símon Örn Birgisson
Framkvæmdastjóri
Ásgerður G. Gunnarsdóttir
– – – – – –
Þorleifur Örn Arnarsson var að ljúka námi frá einum helsta leiklistarskóla Þýskalands, Ernst Busch í Berlin. Á síðustu tveimur árum hefur hann leikstýrt sýningum á stórum leiksviðum í Þýskalandi við góðan orðstír, nú síðast með uppsetningu á Clocwork Orange, og hlotið hún mikið lof áhorfenda og gagnrýnenda.
Andra Snæ Magnason þarf vart að kynna enda löngu landsþekktur fyrir verk sín og hugmyndaauðgi. Andri Snær hlaut hin virtu Kairos verðlaun í Þýskalandi nýlega fyrir framlag sitt til samfélagsumræðu með verkum sínum. Verk hans hafa verið gefin út eða sýnd í 22 löndum og þau hafa hlotið margvíslegar innlendar og alþjóðlegar viðurkenningar.
Leikfélag Reykjavíkur er elsta leikfélag sem starfað hefur óslitið á Íslandi og er jafnframt eitt elsta starfandi menningarfélag landsins. Leikfélagið var stofnað 11. janúar 1897 er tveir hópar áhugamanna um leiklist sameinuðust í eitt félag. Helsti hvatinn að stofnun félagsins var bygging Iðnaðarmannahússins við Tjörnina.
Allir stofnendur Leikfélags Reykjavíkur voru áhugamenn þ.e. höfðu annað aðalstarf og fóru því æfingar og allt starf leikhússins fram utan venjulegs vinnutíma. Meðlimir Leikfélagsins voru allir meðábyrgir í rekstri félagsins og voru skuldbundnir samkvæmt lögum félagsins að greiða ákveðna upphæð ef til gjaldþrots kæmi. Ákvarðanir voru lýðræðislegar varðandi verkefnaval og almennan rekstur. Leikarar fengu greitt kvöldkaup fyrir hvert sýningarkvöld en höfðu jafnan grunntekjur úr sínu aðalstarfi.
Borgarleikhúsið var opnað í október 1989 og voru við það tækifæri frumsýndar tvær nýjar leikgerðir á sögum Halldórs Laxness, Ljósi heimsins á Litla sviðinu og Höll sumarlandsins á Stóra sviðinu.
Borgarleikhúsið er stærsta og best búna leikhús landsins, 10.400 m2 að stærð. Að auki telst það í hópi best búnu leikhúsa Evrópu. Í upphafi voru sviðin tvö, Stóra sviðið og Litla sviðið. Stóri salurinn er blævængslaga með einu, hallandi gólfi og tekur 529 manns í sæti, en sá litli er sexhyrndur með breytilegri sætaskipan og tekur að jafnaði um 170 manns í sæti, en hefur tekið hátt á þriðja hundrað gesta. Í október 2001 var þriðja sviðinu bætt við, Nýja sviðinu, sem í dag er fullkominn ,,svartur kassi“ sem býður uppá mikla möguleika hvað varðar rýmisnýtingu. Sæti eru fyrir 300 áhorfendur. Þriðja hæðin, kaffileikhúsið; lítill salur við mötuneyti starfsmanna, hefur auk þess verið notaður við ýmsar uppákomur, fyrirlestra og sýningar en salurinn tekur um 70 manns í sæti.
Frá opnun Borgarleikhússins hefur Leikfélag Reykjavíkur staðið fyrir metnaðarfullu starfi. Hjarta leikhússins er leikhópurinn sem flutti stoltur frá ,,gamla miðbænum“ í ,,nýja miðbæinn“ og hefur að jafnaði staðið fyrir öflugri en jafnframt fjölbreyttri verkefnaskrá ár hvert. Að auki hefur Leikfélagið tryggt annarri menningarstarfsemi aðstöðu í húsinu, boðið til sín gestaleikjum og tekið þátt í innlendu sem erlendu samstarfi. Borgarleikhúsið er eins og Iðnó forðum, menningarmiðja í Reykjavík.