Dúfurnar

Dúfurnar

Sviðssetning
Leikfélag Reykjavíkur

Sýningarstaður
Borgarleikhúsið, Nýja svið

Frumsýning
10. apríl 2010

Tegund verks
Leiksýning

„Ég vil burt héðan“ eru fyrstu orð Róberts forstjóra í jólaboði fyrirtækisins. Skömmu síðar hverfur hann með húð og hári.

image-15

Vænisjúka taugahrúgan Holgeir sest í forstjórastólinn þó honum sé það þvert um geð. Við tekur einelti, tvíelti, framhjáhald, undanhald, geðlækningar, geðsýkingar, innbrot, útbrot, uppástungur, undanstungur, dúfnarækt, dúfnaát og auðvitað franski tvífarinn!

image-17

Dúfurnar unnu til verðlauna í Þýskalandi sl. haust sem besti nýi gamanleikurinn og gekk fyrir fullu húsi í Berlín síðastliðinn vetur.

Höfundur
David Gieselmann

Þýðing
Hafliði Arngrímsson

Leikstjóri
Kristín Eysteinsdóttir

Leikarar í aðalhlutverkum
Halldór Gylfason
Hilmir Snær Guðnason
Sigurður Sigurjónsson

Leikkona í aðalhlutverki
Halldóra Geirharðsdóttir

Leikari í aukahlutverki
Jörundur Ragnarsson

Leikkonur í aukahlutverkum
Elma Lísa Gunnarsdóttir
Nína Dögg Filippusdóttir
Unnur Ösp Stefánsdóttir

Leikmynd
Ilmur Stefánsdóttir

Búningar
Ilmur Stefánsdóttir

Lýsing
Þórður Orri Pétursson

Tónlist
Vilhelm Anton Jónsson

Hljóðmynd
Sigurður Ingvar Þorvaldsson

image-16

David Gieselmann (1972) hefur hlotið mikið lof fyrir verk sín, og þykja leikrit hans höfða til nýrrar kynslóðar leikhúsgesta. Þau eru í senn meinfyndin, flugbeitt og þykir húmor Gieselmanns æði nýstárlegur. Þeir sem hafa gaman af Klovn og The Office ættu að geta fundið sitthvað fyrir sinn smekk í þessu verki. Gieselmann hefur undanfarið starfað við virtasta leikhús Þýskalands, Schaubühne í Berlín. Þekktasta leikrit hans, Herra Kolbert, hefur farið sigurför um heiminn og verið sýnt í yfir tuttugu löndum, þar á meðal Íslandi, við miklar vinsældir.

Leikfélag Reykjavíkur er elsta leikfélag sem starfað hefur óslitið á Íslandi og er jafnframt eitt elsta starfandi menningarfélag landsins. Leikfélagið var  stofnað 11. janúar 1897 er tveir hópar áhugamanna um leiklist sameinuðust í eitt félag. Helsti hvatinn að stofnun félagsins var bygging Iðnaðarmannahússins við Tjörnina.

Allir stofnendur Leikfélags Reykjavíkur voru áhugamenn þ.e. höfðu annað aðalstarf og fóru því æfingar og allt starf leikhússins fram  utan venjulegs vinnutíma. Meðlimir Leikfélagsins voru allir meðábyrgir í rekstri félagsins og voru skuldbundnir samkvæmt lögum félagsins að greiða ákveðna upphæð ef til gjaldþrots kæmi. Ákvarðanir voru lýðræðislegar varðandi verkefnaval og almennan rekstur. Leikarar fengu greitt  kvöldkaup fyrir hvert sýningarkvöld en höfðu jafnan grunntekjur úr sínu aðalstarfi.

Borgarleikhúsið var opnað í október 1989 og voru við það tækifæri frumsýndar tvær nýjar leikgerðir á sögum Halldórs Laxness, Ljósi heimsins á Litla sviðinu og Höll sumarlandsins á Stóra sviðinu.

Borgarleikhúsið er stærsta og best búna leikhús landsins, 10.400 m2 að stærð. Að auki telst það í hópi best búnu leikhúsa Evrópu. Í upphafi voru sviðin tvö, Stóra sviðið og Litla sviðið. Stóri salurinn er blævængslaga með einu, hallandi gólfi og tekur 529 manns í sæti, en sá litli er sexhyrndur með breytilegri sætaskipan og tekur að jafnaði um 170 manns í sæti, en hefur tekið hátt á þriðja hundrað gesta. Í október 2001 var þriðja sviðinu bætt við, Nýja sviðinu, sem í dag er fullkominn ,,svartur kassi“ sem býður uppá mikla möguleika hvað varðar rýmisnýtingu. Sæti eru fyrir 300 áhorfendur. Þriðja hæðin, kaffileikhúsið; lítill salur við mötuneyti starfsmanna, hefur auk þess verið notaður við ýmsar uppákomur, fyrirlestra og sýningar en salurinn tekur um 70 manns í sæti.

Frá opnun Borgarleikhússins hefur Leikfélag Reykjavíkur staðið fyrir metnaðarfullu starfi. Hjarta leikhússins er leikhópurinn sem flutti stoltur frá ,,gamla miðbænum“  í ,,nýja miðbæinn“ og hefur að jafnaði staðið fyrir öflugri en jafnframt fjölbreyttri verkefnaskrá ár hvert. Að auki hefur Leikfélagið tryggt annarri menningarstarfsemi aðstöðu í húsinu, boðið til sín gestaleikjum og tekið þátt í innlendu sem erlendu samstarfi. Borgarleikhúsið er eins og Iðnó forðum, menningarmiðja í Reykjavík.