Á sama tíma að ári
Heiti verks
Á sama tíma að ári
Lengd verks
Tvær klukkustundir
Tegund
Sviðsverk
Um verkið
Eitt febrúarkvöld árið 1951 hittast George og Doris fyrir tilviljun á hóteli og verja nóttinni saman. Þetta kvöld kviknar neistinn. Stundum þarf ekki nema eina nótt – en stundum er ein nótt ekki nóg. Því endurtekur sagan sig, ár eftir ár eftir ár. Á þessum árvissu fundum finnum við fyrir umróti sögunnar; kvenfrelsisbaráttunni, hippatímanum, Víetnamstríðinu og því hvernig viðhorf þeirra til lífsins breytast. Og lokauppgjörið nálgast!
Verkið sló rækilega í gegn þegar það var frumflutt í New York árið 1975. Það fór sem eldur í sinu um heimsbyggðina og stuttu síðar var gerð kvikmynd sem sömuleiðis naut mikilla vinsælda, hlaut fjölda verðlauna og var m.a. tilnefnt til fernra Óskarsverðlauna. Leikritið var tilnefnt til Tony verðlauna og hlaut Drama Desk verðlaunin sem besta leikrit ársins.
Margrét Guðmundsdóttir og Bessi Bjarnason áttu ógleymanlegan leik þegar verkið var sýnt í Þjóðleikhúsinu árið 1978. Tveimur áratugum síðar, árið 1996, léku þau Tinna Gunnlaugsdóttir og Sigurður Sigurjónsson sama leikinn. Nú eru það svo Guðjón Davíð Karlsson og Nína Dögg Filippusdóttir sem takast á við þessi skemmtilegu hlutverk.
Bernard Slade (1930) hóf feril sinn sem leikari og lék í um það bil áratug áður en hann sneri sér að leikritun. Hann er höfundur ótal sjónvarpsleikrita og sjónvarpsmyndasyrpa: The Flying Nun, Tha Partridge Family, Bridget Loves Bernie, The Girl With Something Extra svo einungis fáeinar séu nefndar. Þrátt fyrir mikla velgengni í sjónvarpi sneri Bernard Slade sér aftur að leikhúsinu og hóf að skrifa leikrit. Fyrsta verk hans Á sama tíma að ári (Same Time, Next Year) var fyrst forsýnt í Boston en sló rækilega í gegn strax við frumsýningu í New York árið 1975. Sýningar urðu þá 1453 og hlaut Drama Desk verðlaunin og var tilnefnt til Tony-verðlauna sem besti gamanleikurinn. Þremur árum síðar sendi hann frá sér leikritið Tribute þar sem Jack Lemmon lék aðalhlutverkið en þrátt fyrir það urðu sýningar ekki nema 212. Þriðja leikrit hans, Romantic Comedy sem frumsýnt var árið 1979 með Antony Perkins og Miu Farrow í aðalhlutverkum gekk mun betur en náði ekki vinsældum í líkingu við Á sama tíma að ári. Slade skrifaði kvikmyndahandrit að öllum þremur leikritunum og var tilnefndur til Óskars-verðlauna sem handritshöfundur Á sama tíma að ári. Slade hefur ætíð haldið sig við svipað efni í handritavinnu sinni: Ástir, kynlíf, hjónabönd og framhjáhöld.
Sviðssetning
Borgarleikhúsið
Frumsýningardagur
28. september, 2012
Frumsýningarstaður
Borgarleikhúsið, Stóra svið
Leikskáld
Bernard Slade
Leikstjóri
Sigurður Sigurjónsson og Bjarni Haukur Þórsson
Danshöfundur
Guðmundur Elías Knudsen og Sibylle Köll
Hljóðmynd
Ólafur Örn Thoroddsen
Lýsing
Þórður Orri Pétursson og Garðar Borgþórsson
Búningahönnuður
Stefanía Adolfsdóttir
Leikmynd
Ásta Björk Ríkharðsdóttir
Leikarar
Guðjón Davíð Karlsson
Leikkonur
Nína Dögg Filippusdóttir
Dansari/dansarar
Guðmundur Elías Knudsen og Sibylle Köll
Vefsíða leikhóps/leikhúss eða aðrir tenglar
www.borgarleikhus.is