Belinda og Gyða
Belinda og Gyða
Sviðssetning
Panic Productions
Reykjavik Dance Festival
Steinunn & Brian
Sýningarstaður
Tjarnarbíó
Frumsýning
5. september 2011
Tegund verks
Danssýning
Belinda og Gyða er nýtt íslenskt sviðslistaverk eftir Sveinbjörgu Þórhallsdóttur og Steinunni Ketilsdóttur sem vinna hér í fyrsta skipti saman.
Hegðun, samskipti, hreyfing og hljóð hesta hafa vakið eftirtekt og áhuga höfundanna og hafa þær ákveðið að velja sér hryssur sem viðfangsefni þessa nýja sviðslistaverks. Í verkinu munu þær velta fyrir sér hinum ýmsu spurningum um hryssur og tengja efnið við stöðu konunnar, og samskipti kynjanna.
Danshöfundar
Steinunn Ketilsdóttir
Sveinbjörg Þórhallsdóttir
Dansarar
Steinunn Ketilsdóttir
Sveinbjörg Þórhallsdóttir
Tónlist
Andrea Gylfadóttir
– – –
Steinunn Ketilsdóttir útskrifaðist vorið 2005 frá Hunter College með BA próf í listdansi. Síðastliðin ár hefur Steinunn unnið með vini sínum Brian Gerke (Steinunn and Brian) og saman hafa þau samið fjóra dúetta og eitt hópverk fyrir Íslenska dansflokkinn. Verk þeirra hafa unnið til verðlauna og verið sýnd víðsvegar um Evrópu og í New York. Í New York hafa verk Steinunnar verið sýnd í Dance Theater Workshop og Judson Church á vegum Movement Research og leikhúsinu Dixon Place.
Steinunn hefur dansað fyrir Barböru Mahler, Juliette Mapp og Jessicu Winograd. Hún situr í stjórn Dansverkstæðisins og er í nefnd Reykjavík Dance Festival. Árið 2010 hlaut Steinunn Grímuverðlaun fyrir dansari ársins og danshöfundur ársins fyrir sólóverkið „Superhero“.
Steinunn á í stormasömu ástarsambandi við danslistina en langar að halda því áfram þangað til hún verður gömul og krumpuð. Hún hefur alls ekki gaman af því að lesa bækur en elskar að fara í langar gönguferðir í íslenskri náttúru og busla í heitu pottunum í sundlaugunum í Reykjavík.
– – –
Sveinbjörg Þórhallsdóttir útskrifaðist sem dansari frá Alvin Ailey American Dance Center árið 1995 og lauk Masters gráðu í Kóreografíu frá Fontys University í Hollandi árið 2007. Hún hefur viðtæka reynslu jafnt sem dansari, danshöfundur og kennari og unnið við uppfærslur í öllum atvinnuleikhúsum Reykjavíkur sem og erlendis.
Sveinbjörg er eigandi Panic Production (panicproductions.is) ásamt Margréti Söru Guðjónsdóttur sem sérhæfir sig í að skapa óhefðbundin dansleikhúsverk í samstarfi við erlenda listamenn úr ólíkum listgreinum. Sveinbjörg starfaði lengi sem kennari hjá Listdansskóla Íslands og stjórnaði Nútímadansbrautinni um tíma. Hún er einnig ein af stofnendum Reykjavík Dance Festival. Einnig er hún formaður Samtaka um Danshús sem rekur Dansverkstæðið, vinnustofur fyrir danshöfunda.
Dansverk eftir eftir hana eru fjölmörg en nefna má Rauðar Liljur, Hver ertu Stúlkukind?, Rokstelpan, Elasticity og Skekkja sem tilnefnt var til Grímuverðlaunanna. Með Panic Productions hefur hún í samstarfi við listamennina Margréti Söru Guðjónsd., Rahel Savoldelli, Anne Tismer og David Kiers gert verkið No, He Was White (2005) og sviðsverkið Private Dancer sem var frumsýnt í Borgarleikhúsinu og flutt á hátíðinni Les Grandes Traversées í Bordeaux um áramótin 2008. Sveinbjörg vann nú í vetur dansverkið „How did you know Frankie“ með útskriftarnemendum Listaháskóla Íslands.