Hótel Keflavík
Titill verks:
Hótel Keflavík
Tegund verks:
Verkið er framandverk að hætti Kviss búmm bang
Sviðssetning:
Kviss búmm bang setur upp verkið í samstarfi við Reykjanesbæ og Hótel Keflavík.
Sýningarstaður og frumsýningardagur:
Hótel Keflavík, Reykjanesbæ, 14. janúar 2012
Um verkið:
Hótel Keflavík er framandverk að hætti Kviss búmm bang og tekur 24 klst. í flutningi.
Í hraðasamfélagi nútímans, þar sem lífsgæði eru reiknuð út miðað við framleiðslugetu fólks á milli landa, framleiðslu á veraldlegum hlutum, er lífsgæðakapphlaupið í algleymingi. Flest erum við þaulskipulögð fram í tímann, hverjum degi er snyrtilega skipt niður í vinnu/frí og frítími okkar er mettaður af afþreyingu hverja stund. Á mörgum heimilum er alltaf kveikt á sjónvarpinu eða útvarpinu, í strætó hlustum við á ipod og í biðröðum tölum við í símann. Ef það gerist að við verðum vör við að tíminn líður hefur hið ósegjanlega gerst; okkur leiðist.
Í bók (sinni) sem ber titilinn What are you doing with your life? talar J. Krishnamurti um þennan flótta frá leiðindum:
„…we have exhausted ourselves emotionally and mentally; we have tried so many things, so many sensations, so many amusements, so many experiments, that we have become dull, weary. We join one group, do everything wanted of us and then leave it; we then go to something else and try that. ?We have gone from sensation to sensation, from excitement to excitement, till we come to a point when we are really exhausted“. (bls. 88-89)
Í Hótel Keflavík verður gengið út frá þessari forsendu; að þátttakandinn sé algjörlega úrvinda af flóttanum frá leiðindum. Ferðin hefst á BSÍ klukkan 14:00 þar sem hann fær handrit í hendurnar sem hann fylgir næstu 24 klukkustundirnar. Þátttakendur mega hvorki hafa síma eða tölvu meðferðis, en eru beðnir um að koma með ljósmyndaalbúm og dagbækur úr fortíð sinni. Gert er ráð fyrir sex þátttakendum í senn og þegar komið er á Hótel Keflavík fær hver og einn þátttakandi sérherbergi. Á hótelinu verður hverjum og einum gefið færi á að verða tímans áskynja. Sem dæmi um það sem fer fram má nefna kvöldverð þar sem hver og einn situr í við eigið borð með gínu að sessunaut. Þátttakendur munu eiga í litlum samskiptum við hvern annan, mestmegnis dvelja í þögn með sjálfum sér eða ræða við gínuna.
Tilgangur og markmið sýningarinnar er að þátttakandinn velti fyrir sér tilvist sinni og takist á við spurningar eins og hvað gerist þegar við finnum tímann líða, hversvegna þátttakandinn hagi tíma sínum dags daglega eins og hann gerir, hvaða reglur hann hefur sett sér í hversdeginum og hvaða reglum hann lýtur án þess að spyrja sig af hverju. Að auki munu handrit og samspil þess við umhverfi þátttakanda innihalda stórar tilvistarlegrar spurningar, svo sem til hvers við fæðumst og deyjum og hver tilgangur alls sé, og boðið verður upp á hlaðborð af viðleitni mannkyns í gegnum aldirnar til að svara þessum spurningum; úr trúarbrögðum, stjörnufræði, náttúruvísindum, spíritisma, existensíalisma, sálarfræðum, félagsfræðum og tómhyggju svo fátt eitt sé nefnt.
Leikskáld:
Kviss búmm bang (Eva Björk Kaaber, Eva Rún Snorradóttir og Vilborg Ólafsdóttir)
Leikstjóri:
Kviss búmm bang (Eva Björk Kaaber, Eva Rún Snorradóttir og Vilborg Ólafsdóttir)
Hljóðmynd:
Kviss búmm bang (Eva Björk Kaaber, Eva Rún Snorradóttir og Vilborg Ólafsdóttir)
Vefsíða leikhóps: www.kvissbummbang.com