STARFSREGLUR OG MARKMIÐ

I. Sviðslistasamband Íslands stendur fyrir glæsilegri, fagmannlegri og skemmtilegri uppskeruhátíð í lok leikársins, í júní ár hvert.

II. Hátíðin er samstarfsverkefni félaga, samtaka og stofnana innan vébanda Sviðslistasambandsins.

III. Á hátíðinni eru sviðsverk og útvarpsverk verðlaunuð og listamönnum veittar viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur í sviðslistum á liðnu leikári.

IV. Verðlaunahátíðin nefnist: GRÍMAN – ÍSLENSKU SVIÐSLISTAVERÐLAUNIN.

V. Markmið Grímunnar – Íslensku sviðslistaverðlaunanna eru:

• Að auka fagmennsku og sérhæfingu innan sviðslista og stuðla að metnaðarfullum vinnubrögðum þeirra er starfa við sviðslistir með það að leiðarljósi að auka gildi, sýnileika og hróður sviðslista á Íslandi.

• Að skapa ferskan vettvang til þess að kynna íslenskt leikhús enn frekar fyrir almenningi með því að gera upp leikárið í fjölmiðlum og kynna það sem uppúr stendur hverju sinni.

• Að standa fyrir klassískri verðlaunahátíð þar sem sigurvegarar hvers verðlaunaflokks eru hylltir af starfsfélögunum og kynntir almenningi með stuðningi fjölmiðla.

• Að standa fyrir uppskeruhátíð sviðslistanna í lok leikársins.

1. SKIPULAG

1.1. Eigandi og framkvæmdaaðili Grímunnar – Íslensku sviðslistaverðlaunanna er Sviðslistasamband Íslands, Lindargötu 6, 101 Reykjavík, kt. 671077-0599.

1.2. Starfsár Íslensku sviðslistaverðlaunanna hefst 1. maí ár hvert og lýkur 30. apríl ár hvert.

1.3. Málefni Íslensku sviðslistaverðlaunanna skulu tekin til umfjöllunar á aðalfundi Sviðslistasambands Íslands sem haldinn er einu sinni á ári, fyrir lok nóvember. Rétt til setu á aðalfundi hafa fulltrúar þeirra aðila (samtaka og félaga) sem eiga fasta aðild að Sviðslistasambandi Íslands (fulltrúaráð Sviðslistasambands Íslands).

1.4. Reikningar íslensku sviðslistaverðlaunanna eru lagðir fram á aðalfundi Sviðslistasambands Íslands og heyrir fjárhagur Íslensku sviðslistaverðlaunanna undir Sviðslistasamband Íslands, stjórn og gjaldkera þess.

1.5. Stjórn Sviðslistasambands Íslands sem gegnir jafnframt stöðu stjórnar íslensku sviðslistaverðlaunanna, er kjörin á aðalfundi Sviðslistasambandsins og fer með æðsta ákvörðunarvald í málefnum Grímunnar.

1.6. Stjórn íslensku sviðslistaverðlaunanna ræður framkvæmdaaðila sem annast undirbúning verðlaunahátíðarinnar, hefur umsjón með valferlinu og skipuleggur kynningu á tilnefningum í fjölmiðlum. Framkvæmdaaðili heldur lista yfir þau sviðsverk sem koma til álita, annast tengsl við leikhús og sviðslistahópa sem og tengsl við meðlimi valnefndar og útvegar þau gögn sem þarf.

1.7. Stjórn íslensku sviðslistaverðlaunanna er, ásamt framkvæmdaaðila, framkvæmdanefnd sem hefur yfirumsjón með undirbúningi, skipulagi og framkvæmd Íslensku sviðslistaverðlaunanna.

2. VERÐLAUNAFLOKKAR

2.1. Verðlaunaflokkar eru 20.

2.2. Í 3 flokkum eru hljóðverk og sviðsuppfærslur í heild sinni verðlaunaðar, en það eru flokkarnir SÝNING ÁRSINS, BARNASÝNING ÁRSINS OG ÚTVARPSVERK ÁRSINS.

2.3. Í 15 flokkum eru einstakir listamenn verðlaunaðir fyrir framlag sitt til sviðsverka.

2.4. Í tveimur flokkum eru ævistarf listamanna og nýsköpun verðlaunuð en það eru flokkarnir HEIÐURSVERÐLAUN GRÍMUNNAR OG SPROTI ÁRSINS.

2.5. Verðlaunaflokkur telst gildur ef í honum koma fram tillögur um að minnsta kosti sjö sviðsverk eða listamenn. Að öðrum kosti fellur sá verðlaunaflokkur niður það árið.

Ef tillögurnar eru sjö, átta eða níu skulu tilnefningar vera þrjár. Til þess að tilnefningar geti orðið fimm, þurfa að vera að minnsta kosti tíu tillögur um sviðsverk eða listamenn.

2.6. Verðlaunahafi er kjörinn af valnefnd Grímunnar í eftirfarandi flokkum: 

SÝNING ÁRSINS Veitt leikhússstjóra leikhúss eða forsvarsmanni sviðslistahóps fyrir hönd allra þeirra er störfuðu við uppfærsluna. Í þessum flokki koma allar sviðsuppfærslur til álita sem frumsýndar hafa verið af atvinnuleikhúsum eða sviðslistahópum atvinnumanna á starfsárinu á Íslandi og falla ekki undir annan verðlaunaflokk.

LEIKRIT ÁRSINS Veitt höfundi/höfundum fyrir leikrit sem frumflutt var á leikárinu á sviði eða leikið hljóðverk í útvarpi og/eða á vefnum. Afleidd leikverk, s.s. leikgerðir eftir skáldsögum, kvikmyndahandritum, ljóðum, myndum eða öðru sem áður hefur verið birt, flutt, sýnt eða gefið út , koma einnig til greina í þessum flokki. Framkvæmdaaðili Grímunnar skal leita eftir því að valnefnd hafi aðgang að handritum verkanna.

LEIKSTJÓRI ÁRSINS Veitt leikstjóra fyrir leikstjórn á sviðsverki.

LEIKARI ÁRSINS Í AÐALHLUTVERKI Veitt leikara fyrir leik í aðalhlutverki.

LEIKKONA ÁRSINS Í AÐALHLUTVERKI Veitt leikkonu fyrir leik í aðalhlutverki.

LEIKARI ÁRSINS Í AUKAHLUTVERKI Veitt leikara fyrir leik í aukahlutverki.

LEIKKONA ÁRSINS Í AUKAHLUTVERKI Veitt leikkonu fyrir leik í aukahlutverki.

LEIKMYND ÁRSINS Veitt höfundi leikmyndar fyrir frumsýnda leikmynd.

BÚNINGAR ÁRSINS Veitt höfundi búninga fyrir frumsýnda búninga.

LÝSING ÁRSINS Veitt höfundi lýsingar fyrir frumsýnda lýsingu.

TÓNLIST ÁRSINS Veitt höfundi tónlistar fyrir frumflutta tónlist.

HLJÓÐMYND ÁRSINS Veitt höfundi hljóðmyndar fyrir frumflutta hljóðmynd.

SÖNGVARI ÁRSINS Veitt söngvara fyrir söng.

DANS – OG SVIÐSHREYFINGAR ÁRSINS Veitt höfundi dans– og sviðhreyfinga fyrir frumfluttar dans- og sviðhreyfingar.

DANSARI ÁRSINS Veitt dansara fyrir dans í frumfluttu dansverki.

DANSHÖFUNDUR ÁRSINS Veitt danshöfundi fyrir kóreógrafíu í frumfluttu dansverki.

BARNASÝNING ÁRSINS Veitt leikhússstjóra leikhúss eða forsvarsmanni sviðslistahóps fyrir hönd allra þeirra er störfuðu við uppfærsluna. Í þessum flokki koma allar sviðsuppfærslur til álita sem frumsýndar hafa verið af atvinnuleikhúsum eða sviðslistahópum atvinnumanna á starfsárinu á Íslandi og eru sérstaklega ætlaðar til sýninga fyrir börn og/eða unglinga.

ÚTVARPSVERK ÁRSINS Veitt leikstjóra útvarpsleikrits eða leikins hljóðverks fyrir hönd allra þeirra er störfuðu við upptöku verksins. Í þessum flokki koma öll útvarpsverk og leikin hljóðverk til álita sem frumflutt hafa verið á starfsárinu og forsvarsmenn þeirra kjósa að leggja fram.

SPROTI ÁRSINS Nýsköpunarverðlaun veitt einstaklingi eða hóp fyrir frumleika eða framúrskarandi nýbreytni á árinu.

HEIÐURSVERÐLAUN SVIÐSLISTASAMBANDS ÍSLANDS Handhafar heiðursverðlauna eru útnefndir af stjórn Sviðslistasambands Íslands. Verðlaunin eru veitt einstaklingum er þykja hafa skilað framúrskarandi ævistarfi í þágu sviðslista á Íslandi. Í aðdraganda verðlaunahátíðarinnar, á vorin ár hvert, auglýsir stjórn Sviðslistasambands Íslands eftir tilnefningum frá fulltrúaráði Sviðslistasambands Íslands. Handhafi heiðursverðlauna er valinn úr hópi þeirra er tilnefningu hljóta.

3. VALNEFND

3.1 Valnefnd skal skipuð níu aðalfulltrúum og þremur varafulltrúum sem tilnefndir eru af fagfélögum innan Sviðslistasambands Íslands og stjórn SSÍ.

  • Einn frá Félagi íslenskra leikara: FÍL
  • Einn frá Félagi íslenskra leikara í fullu samráði við Félag klassískra söngvara á Íslandi: FÍL & KLASSÍS
  • Einn frá Félagi leikstjóra á Íslandi: FLÍ
  • Einn frá Félagi íslenskra listdansara: FÍLD
  • Einn frá Félagi leikmynda- og búningahönnuða: FLB
  • Einn frá Félagi danshöfunda á Íslandi: FDÍ
  • Einn frá Félagi leikskálda og handritshöfunda: FLH
  • Einn frá Félagi tæknimanna: FTF
  • Einn frá stjórn SSÍ og skal það vera fræðimaður á sviði sviðslista
  • Einn  frá SAVÍST, einn frá SL og einn frá SAFAS

3.2. Stjórnir þeirra félaga sem eiga fulltrúa í valnefnd skulu tilnefna aðal- og vara fulltrúa, af ólíku kyni, í nefndina eigi síðar en 15. maí ár hvert og senda stjórn SSÍ. Listi yfir tilnefnda fulltrúa í valnefnd skal síðan lagður fyrir fulltrúaráð SSÍ 16. maí ár hvert. Samþykki ¾ hluta fulltrúa þarf til að valnefnd sé samþykkt. Fáist ekki niðurstaða skal halda fund viku síðar þar sem brugðist verður við athugasemdum og nefndin formlega skipuð.

3.3. Valnefnd skal skipuð listamönnum og fræðimönnum með víðtæka þekkingu á sviðslistum samtímans og/eða fagþekkingu á eigin listgrein. Þeir sem fjalla um sviðslistir á opinberum vettvangi eru ekki gjaldgengir í valnefnd. Forðast skal að velja fulltrúa sem tengjast sýningum leikársins of nánum böndum; s.s. leikhússtjóra, framkvæmdastjóra, leiklistarráðunauta leikhúsa, forsvarsmenn sviðslistahópa, listræna stjórnendur sýninga eða markaðs-og kynningarstjóra leikhúsa. Að öðru leyti en hér greinir er félögum í sjálfsvald sett hverjir veljast sem fulltrúar í valnefndinni.

3.4 Fulltrúaráð skal tryggja að nefndin endurspegli allar greinar sviðslista: Leiklist, dans og óperu. Fulltrúaráð skal einnig gæta þess að kynjahlutfall sé eins jafnt og frekast er unnt, t.d. með því að færa tilnefnda aðal- og varafulltrúa um sæti, slíkt skal þó gert í samráði við tilnefninfaraðila. 3.11 Valnefndarfulltrúar skulu fá frið til starfa. Fulltrúaráði er óheimilt að hlutast til um störf nefndarinnar á nokkurn hátt.

3.5. Nefndarmenn skulu sjá öll þau sviðsverk sem frumsýnd eru á leikárinu, enda séu þau skráð í Grímuna. Geti aðalfulltrúi, af óviðráðanlegum ástæðum, ekki séð tiltekna sýningu eða teljist vanhæfur skv. gr. 3.3, skal hann tryggja að varafulltrúi sjái sýninguna í sinn stað.

3.6 Forfallist aðafulltrúi varanlega áður en starfsári Grímunnar er lokið tekur varafulltrúi við og sinnir öllum skyldum sem aðalfulltrúi væri, þ.m.t. atkvæðagreiðslu í forvali og aðalvali.

Ef í ljós kemur, fyrir forval, að varafulltrúi hafi séð fleiri sýningar en aðalfulltrúi víxlast hlutverkin, þannig að varafulltrúi verður aðalfulltrúi og ber þá ábyrgð á atkvæðagreilsu í forvali og aðalvali.

Aðal- og varafulltrúar, sem deilt hafa störfum í einhverjum mæli á starfsárinu, skulu bera saman bækur sínar fyrir atkvæðagreiðslu í forvali og aðalvali í þeim tilgangi að styrkja niðurstöðu kosninganna. Í slíklum tilfellum ber varafulltrúa að gefa til kynna samþykki sitt við atkvæðagreiðsluna á kjörseðli í forvali og aðalvali.

Verkefnastjóri Grímunnar hefur eftirlit með vinnuframlagi hvers nefndarmanns, aðal- og varafulltrúa.

3.7. Valnefndin starfar fyrir opnum tjöldum og fær umbun fyrir vinnu sína samkvæmt ákvörðun stjórnar SSÍ.

3.8. Fulltrúum í valnefnd ber að sinna starfi sínu af heilindum og metnaði og meta gæði sviðsverka og framlag listamanna út frá eigin sannfæringu. Fulltrúar í valnefnd eru bundnir trúnaði um störf nefndarinnar og er óheimilt að tjá álit sitt á sýningum opinberlega.

3.9 Sérhver fulltrúi í valnefnd skrifar undir yfirlýsingu um að vinna af samviskusemi eftir reglum þessum og í samræmi við markmið og gildi Grímunnar. Það sama gildir um varafulltrúa.

4. VALFERLI

4.1. Forsvarsmenn þeirra sviðs- og hljóðverka sem frumsýnd eru á leikárinu senda stjórn Íslensku sviðslistaverðlaunanna nöfn sviðsverkanna sem þeir vilja að komi til álita til Íslensku sviðslistaverðlaunanna og nöfn þeirra listamanna sem þeir vilja að komi til álita í hverjum flokki fyrir sig. Skal þetta gert eigi síðar en í vikunni fyrir frumsýningu verksins. Skulu þá allir starfandi listamenn sem koma að uppfærslunni nefndir, svo lengi sem starfssvið þeirra fellur að einhverjum verðlaunaflokkanna. Nöfn allra sviðsverka og listamanna skulu hafa borist fyrir 1. maí ár hvert. Útvarpsleikhúsið og forsvarsmenn annarra leikinna hljóðverka taka að sér fjölföldun sinna útvarps- og hljóðverka fyrir meðlimi valnefndar eða gera þau aðgengileg á netinu.

4.2. Forsvarsmenn sviðsverka sem frumsýnd eru þremur vikum eða skemur fyrir lok starfsársins geta valið hvort uppfærslur þeirra verði lagðar fram á yfirstandandi starfsári eða því næsta.

4.3. Stjórn Íslensku sviðslistaverðlaunanna heldur lista yfir öll þau sviðsverk sem koma til álita og þá listamenn sem við þau starfa og falla undir einn eða fleiri verðlaunaflokka.

4.4. Stjórn Íslensku sviðslistaverðlaunanna/framkvæmdaaðili útbýr kjörgögn sem innihalda sundurliðaða kjörseðla fyrir hvern verðlaunaflokk fyrir valnefnd í forvali og aðalvali. Í forvali skulu kjörseðlarnir innihalda nöfn allra þeirra sviðsverka eða listamanna sem koma til álita til Grímunnar – Íslensku sviðslistaverðlaunanna en í aðalvali nöfn þeirra sem eru tilnefndir.

4.5. Þeir sem hafa rétt til þess að hljóta tilnefningu eru allir þeir íslensku og erlendu listamenn sem starfað hafa við þau sviðsverk sem frumsýnd hafa verið á leikárinu.

4.6. Valnefndin hittist amk. tvisvar sinnum í forvali: Til að ræða tilnefndar sýningar/listamenn í öllum flokkum og til að velja þrjár tilnefningar; hópa eða einstaklinga í Sprota ársins. Framkvæmdaaðili Grímunnar eða annar óháður aðili fyrir hönd stjórnar SSÍ boðar til þessara funda og sér um framkvæmd þeirra. Framkvæmdaaðili stýrir fundum og boðar til aukafunda ef upp koma vafatriði.

4.7. Í forvali hittist nefndin, ræðir tillögur sínar og kýs svo um allar tilnefningar nema Sprota ársins leynilegri kosningu.

4.8. Í forvali skal valnefnd halda sérstakan fund til að velja þrjá hópa eða einstaklinga sem valnefnd tilnefnir sem Sprota ársins. Valnefndin tekur sameiginlega ákvörðun um hvaða fimm listamenn eða hópar eru tilnefndir. Framkvæmdaaðili skráir síðan niðurstöðu á kjörseðil í aðalvali.

4.9. Þegar meðlimir valnefndar kjósa í forvali þá velja þeir þrjá til fimm listamenn eða sviðsverk í hverjum verðlaunaflokki nema í Sprota ársins. Framkvæmdaaðili Grímunnar heldur utan um kosningu. Raða skal listamönnunum eða sviðsverkunum fimm í fyrsta til fimmta sæti með tölustöfunum 1, 2, 3, 4 og 5.

4.10. Í aðalvali kýs valnefndin í öllum flokkum í vefkosningu og raðar í sæti 1-3. Fyrsta sæti fær flest stig og þriðja sæti fæst stig.

4.11. Eigi síðar en 5 dögum eftir kosningu valnefndar í forvali kunngjörir stjórn Íslensku sviðslistaverðlaunanna opinberlega með fréttatilkynningu og fréttamannafundi þau þrjú til fimm nöfn listamanna, verka og sýninga sem efst urðu í kjöri valnefndar í öllum flokkum. Þessi þrjú til fimm nöfn eru tilnefningar til Grímunnar – Íslensku sviðslistaverðlaunanna.

4.12. Stjórn Íslensku sviðslistaverðlaunanna getur boðað alla meðlimi valnefndar á sérstakan fund ef fjalla þarf um vafamál sem framkvæmdaaðili getur ekki tekið afstöðu til. Valnefnd er æðsta vald í málefnum þeim er varða valferli, kosningar og vafamálum þeim tengdum.

5. ÁBYRGÐ OG HÆFI

5.1 Stjórn SSÍ ber ábyrgð á að reglum þessum sé fylgt og getur gripið til úrræða (s.s. ógildingu atkvæða) hafi hún rökstuddan grun um brot á þeim. Stjórn getur t.d. þurft að sannreyna hæfisskilyrði valnefndarfulltrúa og leysa vafamál varðandi kosningar.

5.2 Fulltrúar valnefndar meta hæfi sitt til setu í valnefnd og þátttöku í mati/kosningu skv. reglum þessum út frá eigin samvisku og eftirfarandi hæfisákvæðum:

Ekki er ætlast til að fulltrúar kjósi sjálfa sig, maka, börn, systkini, foreldra, tengdabörn né tengdaforeldra. Bera skal öll vafamál undir úrskurð verkefnastjóra, sem getur leitað atbeina stjórnar telji hann þess þurfa.

Hafi fulltrúi starfað við sýningu er kemur til álita á leikárinu, getur hann ekki kosið þá sýningu í neinum verðlaunaflokki í forvali eða aðalvali og ekki tekið þátt í umræðum um hana í forvali.

Fulltrúar í valnefnd skulu senda verkefnastjóra og stjórn lista yfir allar sýningar sem þeir starfa við á árinu.

5.4. Stjórn SSÍ getur ráðið hlutlausan og utanaðkomandi eftirlitsaðila til að fylgist með framkvæmd kosninga í forvali og aðalvali. Eftirlitsaðilinn fær fullan aðgang að kosningagögnum og ber, ásamt verkefnastjóra, ábyrgð á að kosning fari fram samkvæmt starfsreglum.

Þannig samþykkt á aðalfundi SSÍ 3. desember 2018

Breytingar samþykktar á fulltrúaráðsfundi 18. maí 2022 og 22. sept 2023