Pabbinn

Sviðssetning
Íslenska leikhúsgrúppan

Sýningarstaður
Iðnó 

Frumsýning
25. janúar 2007

Tegund verks
Einleikur

Þar til fyrir stuttu hefur hlutverk feðra, í uppeldi barna, eiginlega verið talið óþarft. Í hundruð ára trúði fólk því að konur, einfaldlega vegna eðlisávísunar þeirra, væru mun hæfari í að ala upp börn. Þær væru nú með réttu græjurnar og svona. En nútíminn er allt annar: heimurinn breyttist. Heimilin breyttust. Kynjamunurinn minnkaði. Núna er sagt að karlmaður, sem tekur virkan þátt í og axlar ábyrgð á uppeldi barna sinna, hafi gríðarleg áhrif (jákvæð!) á börnin, heimilið og heiminn. En af hverju líður flestum karlmönnum samt eins og þeir þurfi að ljúka BA-námi í „föðurfræðum” í hvert skipti sem þeir halda á börnunum sínum?

Barnauppeldi er frumskógur. Karlmenn eru kannski í fyrsta sinn að kynnast því af fullri alvöru. Og sennilega kominn tími til. En það gerist ekki sársaukalaust!

Leikverkið er einleikur eða „one-man-show” þar sem Bjarni Haukur bregður sér í ýmis líki og veltir því fyrir sér hvað það er að vera pabbi. Hvers vegna eignumst við börn? Það er ekki eins og það vanti fólk. Það er til nóg af fólki. Og vanti okkur fólk, flytjum við það inn. Er þetta ást? Sjálfselska? Eða finnst okkur bara svona gott að geraða? Er meðgangan kannski ekkert annað en sogblettur fullorðna fólksins?

Leikverkið er frásögn þar sem Pabbinn fjallar um aðdraganda þess að hann og konan hans ákváðu að eignast barn. Hvað gerist á meðgöngunni og við undirbúning fæðingarinnar. Fæðingunni og fyrstu skrefunum eru gerð góð skil þegar heim er komið. Allt er séð frá sjónarhóli karlmannsins. En að lokinni meðgöngunni, fæðingunni og fyrstu skrefunum tekur við næsta tímabil, sennilega það lengsta: Uppeldistímabilið. Og það er oft þá, þegar barnið byrjar að ganga, að aðrir hlutir hætta að ganga — eins vel, til dæmis hjónabandið. En þegar öllu er á botninn hvolft eru pabbar að gera hluti í dag sem þóttu óeðlilegir áður. Nú taka þeir ábyrgð á uppeldinu og sinna börnunum. Og kannski eru pabbar fyrst að fatta það núna hvað þeir hafa farið á mis við?

Pabbinn er drepfyndið og hjartnæmt nýtt íslenskt leikrit sem fjallar um það sem skiptir einna mestu máli í lífinu.

Höfundur
Bjarni Haukur Þórsson

Leikstjóri
Sigurður Sigurjónsson

Leikari í aðalhlutverki
Bjarni Haukur Þórsson

Leikmynd
Egill Eðvarðsson

Búningar
Egill Eðvarðsson

Lýsing
Árni Baldvinsson

Tónlist
Þórir Úlfarsson