Hér má skoða og sækja ljósmyndir frá sjöundu Grímuhátíðinni 2009 sem haldin var í Borgarleikhúsinu þann 16. júní. Myndirnar tók Sigurjón Ragnar fyrir Leiklistarsamband Íslands. Myndunum er skipt í nokkra efnisflokka og fyrst birtast verðlaunahafarnir. Grímuverðlaun voru að þessu sinni veitt í 17 flokkum sviðslista auk þess sem heiðursverðlaun Leiklistarsambands Íslands voru veitt Helga Tómassyni, dansara, danshöfundi og listræns stjórnanda San-Francisco ballettsins, sem skilað hefur framúrskarandi ævistarfi í þágu danslistar á heimsvísu.
Glæsilegur og myndarlegur hópur fólks héðan og þaðan úr þjóðlífinu steig fram á stóra sviðið til þess að afhenda Grímuverðlaunin eftirsóttu. Meðal þeirra sem tóku að sér að afhenda verðlaun að þessu sinni voru forseti Íslands, sem jafnframt er verndari Grímunnar, borgarstjórinn í Reykjavík, leikhússtjórar, leikstjórar, tónskáld, danshöfundar, leikarar og leikkonur. Gríman vill koma á framfæri innilegu þakklæti til allra þeirra sem afhentu verðlaun og annarra sem tóku þátt í að gera hátíðina að veruleika.
Kynnar Grímuhátíðarinnar voru Edda Björg Eyjólfsdóttir og Jóhann G. Jóhannsson. Leikaraparið ljúfa fór á kostum með fjörugum innskotum á milli verðlaunaafhendinga. Fyrsta innkoma þeirra var undir tónlist Bjarkar Guðmundsdóttur auk þess sem þau fluttu þekkar línur úr verkum Halldórs Laxness. Ekkert minna en þessi tvö höfuðskáld þjóðarinnar þóttu duga til að opna hátíðina að þessu sinni. Edda Björg var fyrst í fögrum skautbúningi og Jóhann í svörtum smóking. Þau skiptu svo oft um búninga þegar leið á hátíðina og fluttu auk þess dægurlög með spaugilegum textum eftir Braga Valdimar Skúlason baggalút. Margrét Einarsdóttir hafði umsjón með útliti kynnanna.
Sú hefð hefur skapast á Grímuhátíðinni að leikhúsin leggja til atriði úr sýningum vetrarins. Sýningarnar eiga það sameiginlegt að vera umfangsmiklar og/eða tromp-sýningar leikhúsanna; oftast söngleikir, þar sem margir dansarar og leikarar koma fram. Á hátíðinni í ár voru sýnd atriði úr söngleikjunum Söngvaseiði frá Borgarleikhúsinu, Kardemommubænum frá Þjóðleikhúsinu og Grease frá Loftkastalanum, danssýningunni Svaninum frá Íslenska dansflokknum og leiksýningunni Þú ert hér frá Borgarleikhúsinu. Auk þess flutti Þóra Einarsdóttir aríu úr Júlíusi Sesar frá Íslensku óperunni. Einnig voru sýndar af myndbandi svipmyndir úr sýningunni Frida... viva la vida frá Þjóðleikhúsinu.
Það var mikið fjör baksviðs við undirbúning Grímuhátíðarinnar í Borgarleikhúsinu þann 16. júní. Yfir 200 listamenn komu fram á hátíðinni svo skipuleggja þurfti umferðina baksviðs vel. Sem betur fer eru stoðrými leikhússins fjölmörg og faglega hönnuð svo allt gekk vel, auk þess sem hægt var að fylgjast með hátíðinni á stórum skjám baksviðs. Mestu munaði um yfir 120 dansnema, dansara, danskennara og danshöfunda sem tóku þátt í hátíðinni með því að heiðra Helga Tómasson, en hann hlaut heiðursverðlaun Leiklistarsambands Íslands 2009. Fjölbreyttur og glæsilegur hópur steig auk þess fram á sviðið til að afhenda verðlaunin eftirsóttu.
Borgarleikhúsið iðaði af lífi á Grímuhátíðinni þann 16. júní en aðgöngumiðar á hátíðina eru með þeim eftirsóttustu í menningarlífinu. Yfirfullt var í stóra salnum og færri komust að en vildu svo brugðið var á það ráð að sýna hátíðina í beinni útsendingu á risaskjá á Nýja sviðinu þar sem enn fleiri gestir gátu notið. Yfir 200 listamenn komu auk þess fram á hátíðinni og þeir nýttu þann möguleika að horfa á útsendinguna á Nýja sviðinu. Hátíðin hófst með fordrykk í forsal Borgarleikhússins og þar var svo slegið upp balli eftir afhendinguna sem stóð fram á nótt. Hljómsveit skipuð tæknimönnum leikhússins lék fyrir dansi, en söngvarar voru af öllum stærðum og gerðum.
Hér má skoða og sækja myndir frá Grímuhátíðinni 2008, sem haldin var í Þjóðleikhúsinu 13. júní 2008. Myndirnar birtast í nokkrum efnisflokkum og fyrst birtast verðlaunahafarnir. Alls voru veitt verðlaun í sextán flokkum sviðslista, auk áhorfendaverðlauna sem leiksýningin Fló á skinni hlaut. Sýning ársins var valin leiksýningin Hamskiptin og barnasýning ársins var valin leiksýningin Gott kvöld í sviðssetningu Þjóðleikhússins. Forseti Íslands Hr. Ólafur Ragnar Grímsson veitti heiðursverðlaun Leiklistarsambands Íslands en þau hlaut Þuríður Pálsdóttir söngkona, fyrir framúrskarandi ævistarf í þágu sönglistar. Myndirnar tók Sigurjón Ragnar fyrir Leiklistarsamband Íslands.
Á hátíðinni steig fram á svið Þjóðleikhússins myndarlegur hópur fólks víðs vegar að úr þjóðlífinu til að afhenda verðlaunin eftirsóttu. Verðlaunahafarnir voru ekki síður glæsilegir þegar þeir veittu Grímunni viðtöku. Meðal afhendara voru forseti Íslands, borgarstjórinn í Reykjavík, bæjarstjórinn á Akureyri, alþingismenn, utanríkisráðherra og Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti auk leikara, dansara og leikstjóra. Bein útsending í Sjónvarpinu hófst kl. 21 með litskrúðugu atriði úr söngleiknum Ástin er diskó, lífið er pönk. Ungfrú Hollywood var kjörin og að því búnu afhentu Tinna Gunnlaugsdóttir þjóðleikhússtjóri og Páll Magnússon útvarpsstjóri fyrstu verðlaun kvöldsins.
Kynnar kvöldsins, leikararnir Guðjón Davíð Karlsson og Jóhannes Haukur Jóhannesson, eða Jói og Gói, eins og þeir eru jafnan kallaðir fóru á kostum og skemmtu gestum með óborganlegum skemmtiatriðum. Þeir vildu nýta tækifærið, fyrst allir leikhússtjórar landsins voru í salnum og leggja til hugmyndir að nýjum söngleikjum. Fyrsta atriði þeirra félaga var úr söngleiknum Konungur ljónanna, Lion King, þar sem þeir brugðu sér í hlutverk frumskógardýra, annað atriðið var úr frumsömdum friðarsöngleik á sjö tungumálum, þar sem heill barnakór birtist óvænt á sviðinu en það var þriðja atriðið sem sló í gegn; eftirlíking af lokadansinum fræga úr söngleiknum Í djörfum dansi, Dirty Dancing.
Fjölmörg glæsileg atriði úr sýningum vetrarins voru á boðstólnum á Grímuhátíðinni 2008. Hátíðin opnaði með fjörugu atriði úr söngleiknum Ástin er diskó, lífið er pönk sem sýndur var í Þjóðleikhúsinu, flutt var atriði úr söngleiknum Gosa frá Borgarleikhúsinu, KK söng lagið Í eigin vanmætti úr leiksýningunni Fool 4 Love, Lay Low söng lagið Saman úr leiksýningunni Ökutímar, Sigrún Pálmadóttir óperusöngkona og Kurt Kopecky píanóleikari fluttu lagið La Danza eftir Rossini og Bryndís Ásmundsdóttir og hljómsveit Jóns Ólafssonar fluttu lagið Me and Bobby McGee úr söngleiknum Janis 27 sem frumsýndur var í Óperunni um haustið.