UPPSKERUHÁTÍÐ sviðslistanna á Íslandi, Gríman, var haldin miðvikudaginn 16. júní 2010 í Þjóðleikhúsinu og í beinni útsendingu á Stöð 2. Á hátíðinni voru Grímuverðlaunin veitt í áttunda sinn í alls 17 flokkum sviðslista auk heiðursverðlauna Leiklistarsambands Íslands, sem einn ástsælasti leikari þjóðarinnar, Árni Tryggvason hlaut.
Stóri salur Þjóðleikhússins var þétt setinn af samstarfsfélögum, ættingjum og vinum sem heiðruðu Árna með hlýju lófataki og stóðu upp til að syngja með honum eitt hans helsta einkennislag, Dvel ég í Draumahöll úr sýningunni Dýrunum í Hálsaskógi. En líkt og mörgum er enn í fersku minni, lék Árni skógarmúsina Lilla klifurmús í sýningunni fyrir "nokkrum" árum síðan.
Sýning ársins var valin leiksýningin Jesús litli í leikstjórn Benedikts Erlingssonar og í sviðssetningu Leikfélags Reykjavíkur. Sýningin var frumsýnd á Litla sviði Borgarleikhússins þann 20. nóvember 2009. Höfundar verksins, þau Benedikt Erlingsson, Bergur Þór Ingólfsson, Halldóra Geirharðsdóttir, Kristjana Stefánsdóttir og Snorri Freyr Hilmarsson hlutu verðlaun sem leikskáld árins.
SÝNING ÁRSINS
Leiksýningin Jesús litli eftir Benedikt Erlingsson, Berg Þór Ingólfsson, Halldóru Geirharðsdóttur, Kristjönu Stefánsdóttur og Snorra Frey Hilmarsson í sviðssetningu Leikfélags Reykjavíkur í Borgarleikhúsinu. Leikstjórn annaðist Benedikt Erlingsson.
LEIKSKÁLD ÁRSINS
Benedikt Erlingsson, Bergur Þór Ingólfsson, Halldóra Geirharðsdóttir, Kristjana Stefánsdóttir og Snorri Freyr Hilmarsson fyrir leikverkið Jesús litli í sviðssetningu Leikfélags Reykjavíkur í Borgarleikhúsinu.
LEIKSTJÓRI ÁRSINS
Hilmir Snær Guðnason fyrir leikstjórn í leiksýningunni Fjölskyldunni - ágúst í Osage-sýslu í sviðssetningu Leikfélags Reykjavíkur í Borgarleikhúsinu.
LEIKARI ÁRSINS Í AÐALHLUTVERKI
Ingvar E. Sigurðsson fyrir hlutverk sitt í leiksýningunni Íslandsklukkunni í sviðssetningu Þjóðleikhússins.
LEIKKONA ÁRSINS Í AÐALHLUTVERKI
Margrét Helga Jóhannsdóttir fyrir hlutverk sitt í leiksýningunni Fjölskyldunni - ágúst í Osage-sýslu í sviðssetningu Leikfélags Reykjavíkur í Borgarleikhúsinu.
LEIKARI ÁRSINS Í AUKAHLUTVERKI
Björn Thors fyrir hlutverk sitt í leiksýningunni Íslandsklukkunni í sviðssetningu Þjóðleikhússins.
LEIKKONA ÁRSINS Í AUKAHLUTVERKI
Kristbjörg Kjeld fyrir hlutverk sitt í leiksýningunni Hænuungunum í sviðssetningu Þjóðleikhússins.
LEIKMYND ÁRSINS
Börkur Jónsson fyrir leikmynd í leiksýningunni Fjölskyldunni - ágúst í Osage-sýslu í sviðssetningu Leikfélags Reykjavíkur í Borgarleikhúsinu.
BÚNINGAR ÁRSINS
Helga Björnsson fyrir búninga í leiksýningunni Íslandsklukkunni í sviðssetningu Þjóðleikhússins.
LÝSING ÁRSINS
Björn Bergsteinn Guðmundsson fyrir lýsingu í leiksýningunni Fjölskyldunni - ágúst í Osage-sýslu í sviðssetningu Leikfélags Reykjavíkur í Borgarleikhúsinu.
TÓNLIST ÁRSINS
Eiríkur Stephensen og Hjörleifur Hjartarson fyrir tónlist í leiksýningunni Íslandsklukkunni í sviðssetningu Þjóðleikhússins.
HLJÓÐMYND ÁRSINS
Walid Breidi fyrir hljóðmynd í leiksýningunni Völvu í sviðssetningu Pálínu frá Grund og Þjóðleikhússins.
SÖNGVARI ÁRSINS
Ágúst Ólafsson fyrir hlutverk sitt í óperunni Ástardrykknum í sviðssetningu Íslensku óperunnar.
DANSARI ÁRSINS
Steinunn Ketilsdóttir fyrir hlutverk sitt í danssýningunni Superhero í sviðssetningu Reykjavik Dance Festival og Steinunn and Brian.
DANSHÖFUNDUR ÁRSINS
Steinunn Ketilsdóttir fyrir kóreógrafíu í danssýningunni Superhero í sviðssetningu Reykjavik Dance Festival og Steinunn and Brian.
BARNASÝNING ÁRSINS
Leiksýningin Horn á höfði eftir Berg Þór Ingólfsson og Guðmund S. Brynjólfsson í sviðssetningu GRALS - Grindvíska atvinnuleikhússins. Leikstjórn annaðist Bergur Þór Ingólfsson.
ÚTVARPSVERK ÁRSINS
Útvarpsleikritið Einfarar eftir Hrafnhildi Hagalín. Hljóðsetning Einar Sigurðsson. Leikstjórn annaðist Hrafnhildur Hagalín.
HEIÐURSVERÐLAUN LEIKLISTARSAMBANDS ÍSLANDS
Leikarinn Árni Tryggvason fyrir framúrskarandi ævistarf í þágu leiklistar.
ÁHORFENDAVERÐLAUNIN - sýning ársins að mati áhorfenda
Leiksýningin 39 þrep í sviðssetningu Leikfélags Akureyrar.
Fimm efstu sýningar í kjörinu um áhorfendasýningu ársins voru auk 39 þrepa; Faust, Fjölskyldan - ágúst í Osage-sýslu, Gauragangur og Skoppa og Skrítla á tímaflakki en þær voru allar sýndar í Borgarleikhúsinu.
< Fyrri | Næsta > |
---|