Spennan magnast og það styttist í stóru stundina! Leikarinn ljúfi og glæsilegi, Rúnar Freyr Gíslason, verður kynnir Grímuhátíðarinnar í ár og að vanda verður hátíðin full af augna- og eyrnakonfekti bæði fyrir hátíðargesti í stóra sal Þjóðleikhússins og gesti heima í stofu. Sýnt verða glæsileg atriði úr helstu sýningum vetrarins og væntanlegum sýningum næsta leikárs.
Verðlaunahátíðin, sem jafnframt er uppskeruhátíð sviðslistanna, var fyrst haldin árið 2003 og hefur Leiklistarsamband Íslands staðið fyrir hátíðinni árlega allar götur síðan. Aðildarfélög sambandsins eru leikhús, sviðslistahópar, fagfélög og stofnanir innan greinarinnar.
Veitt verða verðlaun fyrir leikárið 2009-10 í alls sautján flokkum. Auk þess verða áhorfendaverðlaun veitt þeirri sýningu sem áhorfendum þótti bera af sem sýning ársins. Jafnframt verða heiðursverðlaun Leiklistarsambands Íslands veitt þeim listamanni er skilað hefur framúrskarandi ævistarfi í þágu sviðslista.
Alls koma 96 frumflutt verk til álita til Grímuverðlauna árið 2010 og hafa aldrei verið fleiri. Þar af eru 7 útvarpsverk, 26 dansverk, 50 almennar sýningar og 13 leiksýningar ætlaðar börnum og/eða unglingum. Við verkin störfuðu yfir eitt þúsund listamenn.
Tilnefningar verða kunngjörðar á fréttamannafundi í Þjóðleikhúskjallaranum föstudaginn 4. júní kl. 16. Allir velkomnir!
< Fyrri | Næsta > |
---|