VALNEFND Grímunnar hefur verið að störfum allt þetta leikár og skoðað um 60 sviðsverk, allt frá einleikjum og hefðbundnum leiksýningum til stórbrotinna ópera og glæsilegra söngleikja.
Alls koma um 1000 listamenn sem hafa tekið þátt í þessum sviðsverkum til álita til Grímunnar í ár og eiga möguleika á verðlaununum eftirsóttu þann 16. júní.
Í valnefndinni eru alls 28 fulltrúar frá helstu leikhúsum, félögum, samtökum og stofnunum innan sviðslista á Íslandi.
Þann 19. maí hefst valferlið þar sem ákvörðun um handhafa Grímunnar 2006 er tekin. verðlaun eru alls veitt í átján flokkum. Valið fer nú fram á netinu og geta meðlimir valnefndarinnar kosið í tölvunni heima eða hvar sem er. Í fyrri umferð kosninganna stendur valið á milli allra sviðsverka og listamanna sem koma til álita. Valnefndin hittist svo á kjörfundi þann 29. maí þar sem valið stendur á milli þeirra fimm listamanna eða sviðsverka sem efst verða eftir fyrri kosninguna.
Tilnefningar til Grímunnar 2006 verða kunngjörðar á fréttamannafundi kl. 15 þann 7. júní á Nýja sviði Borgarleikhússins.
< Fyrri | Næsta > |
---|