LEIKLISTIN á Íslandi blómstrar þrátt fyrir þrengingar og áhorfendur á öllum aldri halda áfram að flykkjast í leikhúsið til að upplifa og njóta. Sumir fara á sýningar til að hvíla sig á raunveruleikanum eina kvöldstund. Margir þurftu einmitt á því að halda í vetur og þá var leikhúsið rétti staðurinn. Sjöunda Grímuhátíðin var haldin í Borgarleikhúsinu þann 16. júní og í beinni útsendingu Sjónvarpsins. Um 45% þjóðarinnar horfðu á útsendinguna heima í stofu.
Glæsilegur hópur fólks steig fram á sviðið til að afhenda verðlaunin eftirsóttu. Verðlaunahafarnir voru ekki síður myndarlegir. Meðfylgjandi ljósmyndir tók Sigurjón Ragnar fyrir Leiklistarsamband Íslands á hátíðarkvöldinu.
Fyrst á svið var söngkonan síkáta Valgerður Guðnadóttir og hópur ungra söngvara úr söngleiknum Söngvaseiði sem sýndur er í Borgarleikhúsinu um þessar mundir. Valgerður var ein þeirra fimm söngvara sem tilnefndir voru til verðlauna. Fluttu þau fjöruga lagasyrpu úr sýningunni.
Tveir hópar leikara af yngstu kynslóðinni taka þátt í sýningunum en á Grímuhátíðinni voru þau öll með og vöktu mikla kátínu meðal áhorfenda.
Fram á sviðið stigu næst kynnar kvöldsins, leikararnir Edda Björg Eyjólfsdóttir og Jóhann G. Jóhannsson. Með þeim á sviðinu voru Pálmi Sigurhjartarson píanóleikari og Matthías Stefánsson fiðluleikari. Þeim var vel fagnað af troðfullum sal áhorfenda. Færri komust að en vildu í stóra salnum og því var brugðið á það ráð að sýna afhendinguna í beinni útsendingu á risaskjá á Nýja sviðinu fyrir enn fleiri gesti.
Kynnarnir voru sérstaklega glæsilegir, Edda Björg klæddist fögrum íslenskum útsaumuðum skautbúningi með handsmíðuðu silfurskarti og hælaskóm í stíl.
Jóhann var í svörtum smóking, hnepptu vesti með silfurhnöppum, með handhnýtta silkislaufu og í nýpússuðum lakkskóm.
Edda og Jóhann fóru með þekktar línur úr verkum Halldórs Laxness undir tónlist Bjarkar Guðmundsdóttur. Ekkert minna en þessi tvö höfuðskáld þjóðarinnar þóttu duga til að opna Grímuhátíðina í ár.
Fyrstu verðlaun kvöldsins voru veitt fyrir útvarpsverk ársins og til þess að afhenda þau stigu á svið Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri og Magnús Geir Þórðarson borgarleikhússtjóri.
Hanna Birna bauð gesti í salnum og áhorfendur heima í stofu velkomna í Borgarleikhúsið, sem hún sagði að Reykjavíkurborg væri stolt að styrkja. Í leikhúsinu yrðu til töfrar á hverju kvöldi fyrir borgarbúa og gesti borgarinnar að njóta. Jafnframt tilkynnti hún að leikárið 2008-9 hefði verið hið aðsóknarmesta frá upphafi og hrósaði sérstaklega nýjum leikhússtjóra hússins, Magnúsi Geir. Hann þakkaði fyrir sig og þakkaði áhorfendum kærlega fyrir komuna í vetur.
Titilinn útvarpsverk ársins 2009 hlaut verkið Yfirvofandi eftir Sigtrygg Magnason. Bergur Þór Ingólfsson leikstjóri og höfundurinn Sigtryggur Magnason veittu verðlaununum viðtöku. Bergur þakkaði Sigtryggi fyrir verkið og kallaði eftir því að fleiri verk hans kæmu fyrir augu og eyru almennings. Bergur gat svo ekki stillt sig um að senda konu og börnum hlýjar kveðjur. Sigtryggur sem hafði fyrir því að skrifa ítarlega þakkarræðu í fyrra, þegar hann var tilnefndur sem leikskáld ársins, sagði glettinn að áhorfendur hefðu misst af miklu að heyra ekki ræðuna þá. Hann óskaði svo Bergi til hamingju.
Til þess að afhenda leikkonu og leikara ársins í aukahlutverkum Grímur voru mættir á sviðið fulltrúar yngstu og elstu kynslóð leikara. Þetta voru annars vegar heiðursverðlaunahafar Grímunnar árið 2007, þau Herdís Þorvaldsdóttir og Róbert Arnfinnsson og hinsvegar Dóra Jóhannsdóttir og Vignir Rafn Valþórsson sem á síðustu leikárum hafa verið að stíga sín fyrstu skref á sviðinu að námi loku. Það var ánægjulegt að sjá Herdísi og Róbert aftur saman á sviðinu og var þeim fagnað innilega af vinum og samstarfsfólki í salnum.
Leikkona ársins í aukahlutverki var valin Birna Hafstein fyrir hlutverk sitt í leiksýningunni Steinar í djúpinu. Sýningin var sviðsett af leikhópnum Lab Loka og Hafnarfjarðarleikhúsinu.
Birna þakkaði samstarfsfólki sínu og sagði að ófæddur sonur (sem hún bar augljóslega undir belti á hátíðinni) hefði haft mikil áhrif á túlkun hennar í verkinu. Sonurinn væri væntanlegur í heiminn eftir nokkra daga og ætti stóran hluta í verðlaununum og fengi gripinn líklega í fæðingargjöf. Hún þakkaði jafnframt leikstjóra sýningarinnar fyrir að umbera ógleði og svima á æfingum og fyrir að fá að leggja sig í leikmyndinni.
Því næst kynntu þau Vignir, Herdís, Róbert og Dóra tilnefningar í flokknum leikari ársins í aukahlutverki og ekki var laust við að spennan væri að aukast í salnum. Hvort saumnálar heyrðust detta skal þó ósagt látið, enda þykkt teppi á gólfinu í Borgarleikhúsinu. Vignir brá þá á leik og þóttist gleyma setningu sinni, en hafði skrifað línurnar í lófann svo ekki kom til þess að Herdís og Róbert þyrftu að aðstoða hann við línurnar í þetta sinn.
Leikari ársins í aukahlutverki var valinn Bergur Þór Ingólfsson fyrir hlutverk sitt í leiksýningunni Milljarðamærin snýr aftur. Sýningin var sviðsett af Leikfélagi Reykjavíkur. Hann var í góðri æfingu við að taka á móti gripum eftir að hafa hlotið fyrstu Grímu kvöldsins og skokkaði léttur á svið. Bergur stalst til að senda börnum og eiginkonu aftur hlýjar kveðjur en auk þess þakkaði hann leikstjóra, leikmyndahönnuði og öðru samstarfsfólki í Borgarleikhúsinu.
Ískaldur hrollur fór um yngstu áhorfendurna þegar Ljónið úr Kardemommubænum stökk upp á sviðið og öskraði af krafti, en þess má geta að Ljónið er leikið af leikara sem er í ljónabúningi. Ljónið er þess vegna ekki hættulegt. Sýningin sígilda um Kardemommubæinn er sýnd í Þjóðleikhúsinu um þessar mundir og er ein þeirra sýninga sem tilnefndar eru sem barnasýning ársins.
Ræningjarnir þrír, þeir Kasper, Jesper og Jónatan voru ekki langt undan og sungu og dönsuðu á meðan Ljónið daðraði við heiðursgesti hátíðarinnar og reyndi að fá símanúmerið hjá Dorrit. Ljónið hefur ýmislegt lært af ræningjunum og því líklegt að ráðherrarnir fjórir á fremsta bekk hafi haldið fast um ríkisbudduna á meðan Ljónið skautaði framhjá.
Ræningjarnir voru samt hálf týndir því þeir höfðu komist að því að það væri ekki lengur í tísku að vera ræningi. En þeir hljóta að taka gleði sína á ný því heyrst hefur að nú vanti vana menn í brunaliðið.
Flottir fulltrúar nýútskrifaðra leikara voru Hannes Óli Ágústsson og Vigdís Másdóttir, en þau luku leikaranámi við Listaháskóla Íslands stuttu fyrir Grímuhátíðina. Hannes og Vigdís voru mætt með umslögin góðu sem geymdu nöfn þeirra er hlutu verðlaun í flokkunum lýsing ársins og hljóðmynd ársins. Þetta var í fyrsta skipti sem sérstök verðlaun voru veitt fyrir hljóðmynd í sýningum, frumsköpun á sviði hljóðs. Þau brugðu á leik til að sýna fram á mátt hljóðmyndar og höfðu fyrirfram tekið upp hugsanir Vigdísar, sem spilaðar voru af bandi á meðan hún lét sem hún kæmi ekki upp orði. Hannes virtist ekkert heyra og beið eftir að Vigdís vaknaði af þessum rafræna hljóðmyndardraumi til þess að kynna tilnefningarnar.
Allt fór vel að lokum en ævintýrinu var þó ekki alveg lokið því verðlaunahafi fyrir lýsingu ársins, Halldór Örn Óskarsson, var ekki í salnum og heldur ekki á landinu bláa en fannst loks við ljósavinnu í Færeyjum. Brugðið var á það ráð að hringja í hann með myndsíma og fartölvu. Þetta lukkaðist og Halldór náði að birtast á sviðinu með aðstoð Hannesar og Vigdísar. Hann þakkaði samstarfsfólki sínu í Þjóðleikhúsinu við sýninguna Utan gátta ásamt því að þakka gömlum samstarfsfélögum úr Loftkastalanum.
Það var svo Gísli Galdur Þorgeirsson sem hlaut Grímuna fyrir hljóðmynd ársins, en hann gerði bæði tónlist og hljóðmynd í sýningunni Húmanímal. Sýningin var sviðsett af leikhópnum Ég og vinir mínir og Hafnarfjarðarleikhúsinu. Gísli Galdur var þakklátur samstarfsfólki í sýningunni og ánægður með starfsandann og undirbúningsferli sýningarinnar og sagði að gróskan í grasrótinni væri slík að listirnar á Íslandi væru í góðum málum.
Edda Björg hafði þá klætt sig í fínan kjól sem fór henni, að eigin sögn, betur en þrönga frumskógarskýlan sem hún hafði sannarlega klæðst á æfingum. Jóhann var ekki hrifinn af þessari skyndilegu útlitsbreytingu því hann hafði lagt mikið á sig að velja réttu skýlurnar og hafði séð til þess að þær væru í sama stílnum. Edda vildi samt meina að hennar útlit gæti allt eins verið Jane, en bara áður en Jane fór í frumskóginn. Áhorfendur virtust kaupa þessi rök, en Jóhann rauk í burtu í fússi sviðs hægri með tilnefndu búningana.
Leikkonurnar fögru Björk Jakobsdóttir, Edda Björgvinsdóttir og Helga Braga Jónsdóttir voru mættar galvaskar á svið, en þær leika saman í sýningunni Fúlar á móti sem Leikfélag Akureyrar sýnir um þessar mundir. Helga Braga mætti seint og stökk á svið beint úr salnum en Edda og Björk höfðu beðið prúðar baksviðs eins og leikkonum á öllum aldri sæmir.
Leikkonurnar þrjár voru komnar til að afhenda verðlaun í útlitsflokkunum leikmynd ársins og búningar ársins en byrjuðu á því að deila með áhorfendum reynslu miðaldra leikkvenna gagnvart þröngum búningum og nýstárlegum leikmyndum. Að sögn gerist það erfiðara og erfiðara með aldrinum að finna réttu búningana og skakkar leikmyndir eru víst ekki vinsælar hjá þessum vaxandi hópi leikkvenna. Kannski tími til kominn að stofna facebook-grúppu og halda samstöðufund?
Myndlistarmaðurinn og leikhúshönnuðurinn Gretar Reynisson varð hlutskarpastur í flokknum leikmynd ársins 2009 fyrir leikmynd í sýningunni Utan gátta. Gretar þakkaði samstarfið við höfund verksins, leikara og leikstjóra og upplýsti að hugmynd að heimi sýningarinnar hafi kviknað fyrir mörgum árum. Gretar vildi einnig þakka Tinnu Gunnlaugsdóttur þjóðleikhússtjóra fyrir hugrekkið sem þurfti til að hleypa verkinu á svið.
Eftir að hafa kynnt tilnefningar í flokknum búningar ársins, þurftu þær vinkonur að nudda augun og lesa á umslagið aftur til að athuga hvort sjónin væri nokkuð farin að bregðast, því sama nafn, nafn Gretars Reynissonar stóð líka á seinna umslaginu. Gretar sem var ennþá baksviðs, trúði varla eigin eyrum þegar hann heyrði nafn sitt kallað aftur.
Og Grímuna fyrir búninga ársins hlaut Gretar Reynisson fyrir búningana í sýningunni Utan gátta í sviðsetningu Þjóðleikhússins. Sýningin hafði þá hlotið verðlaun fyrir alla útlitsþrennuna; leikmynd, búninga og lýsingu. Þetta er fyrsta sinn sem slíkt gerist. Gretar sagði sérstaklega ánægjulegt að hljóta verðlaun fyrir búningahönnun sem hann hefði ekki fengist við lengi, en þó fyrir löngu síðan. Og Gretar var að vonum kátur með þennan tvöfalda og óvænta sigur.
Söngkonan unga Ólöf Jara Skagfjörð steig næst á svið og flutti lag úr söngleiknum Grease sem sýndur er í Loftkastalanum um þessar mundir.
Í kjölfarið stökk Magnús Jónsson ásamt fjölda leikara og dansara úr Grease fram á sviðið og fluttu þau annað sprellfjörugt lag.
Sjaldan hefur verið svona mikið fjör á Grímusviðinu og áhorfendur í salnum skemmtu sér vel með.
Þeir voru flottir á sviðinu, vinirnir Árni Tryggvason leikari og Viðar Eggertsson forseti Leiklistarsambands Íslands. Þeir voru mættir til þess að afhenda aðstandendum barnasýningar ársins Grímuverðlaunin. Viðar byrjaði hinsvegar á því að þakka Árna fyrir að vera mikilvægur persónulegur innblástur þegar Viðar tók þá ákvörðun að gera leiklistina að sínum starfsvettvangi. Það var einleikur Árna, Segulbönd Krapps sem hafði þessi miklu áhrif á Viðar fyrir allmörgum árum. Árna kom þetta að sögn ekki mikið á óvart, því hann var víst talinn mjög góður í sýningunni.
En það var Árni sem kom áhorfendum skemmtilega á óvart þegar hann hóf upp raust sína og söng lag úr leiksýningunni Dýrunum í Hálsaskógi, en Árni var fyrsti Lilli klifurmús í sýningu Þjóðleikhússins fyrir "nokkrum" árum síðan. Það kom þó ekki síst á óvart að Árni hafði engu gleymt, söng af mikilli innlifun og mundi auk þess allan textann. Svo glaðir voru áhorfendur við þessa ánægjulegu upprifjun að þeir stóðu á fætur og klöppuðu Árna lof í lófa. Viðar minnti svo á nauðsyn þess að leikhúsin tryggðu að barnasýningar nytu krafta bestu leikara þjóðarinnar hverju sinni. Þær eru ekki ófáar barnasýningarnar sem Árni hefur starfað við á glæsilegum ferli og þannig verið innblástur fjölda listamanna samtímans.
Titilinn barnasýning ársins 2009 hlaut barna- og unglingasýningin Bólu-Hjálmar í sviðsetningu Stoppleikhópsins. Verðlaununum veittu móttöku þau Eggert Kaaber leikari og forsvarsmaður Stoppleikhópsins, Guðrún Öyahals leikmynda- og búningahönnuður, Snæbjörn Ragnarsson leikskáld, Ágústa Skúladóttir leikstjóri og Magnús Guðmundsson leikari. Ágústu þótti það sérstaklega mikill heiður að fá að taka á móti verðlaununum úr hendi Árna Tryggvasonar.
Ágústa þakkaði samstarfsfólki sínu og höfundum sýningarinnar en ekki síst Bólu-Hjálmari sjálfum og þótt hann hafi ekki mætt á æfingar, þá hafi hann verið þar í anda, verið leikhópnum andagift og jafnvel innan handar við stór og smá úrlausnarefni. Hún lauk máli sínu með því að senda Bólu-Hjálmari pönkað ljóð.
Kynnar kvöldsins tóku næst uppá því að syngja lítið lag tileinkað þeim sem ekki áttu möguleika á að hljóta Grímuverðlaun og komast ekki oft í sviðsljósið. Þessir einstaklingar starfa samt innan leikhússins og eru mikilvægir hlekkir í leiksýningum, svokölluð maskína leikhússins. Þetta eru t.d. sminkur, leikmunaverðir og hvíslarar og líklegt er að mörgum hafi hlýnað um hjartaræturnar við þessa góðu kveðju kynnanna. Lagið hófst á orðunum; Ó, þú! Enginn hvíslar eins og þú, enginn propsar eins og þú, enginn farðar eins og þú...
Þungaviktin á sviðinu minnkaði ekki við næstu afhendara, því mættir voru tónskáldin og tónlistarmennirnir Atli Heimir Sveinsson og Egill Ólafsson. Þeir heilsuðu að sið Hjallastefnunnar með jákvæðni og gleði og óskuðu þess að slíkar venjur væru viðhafðar oftar í leikhúsinu. Spennan í salnum var nú orðin áþreifanleg en Atli og Egill voru komnir til að upplýsa um þá sem hlutu verðlaun í flokkunum tónlist ársins og söngvari ársins.
Grímuna fyrir tónlist ársins hlaut Guðni Franzson, en hann var höfundur tónlistar og hljóðmyndar í leiksýningunni Steinar í djúpinu. Guðni sem staddur var erlendis hafði beðið Birnu Hafstein fyrir skilaboð frá sér ef ske kynni að hann mundi hljóta verðlaunin. Hann sendi sérstakar þakkir til hljóðfæraleikaranna sem störfuðu með honum við sýninguna, þeirra Bryndísar Höllu Gylfadóttur og Daníels Þorsteinssonar.
Atli og Egill kynntu næst tilnefningar í flokknum söngvari ársins. Egill minntist orða nestorsins Guðmundar Jónssonar söngvara, en hann hafði gefið sviðssöngvurum einföld ráð þegar túlka þurfti flókin hlutverk með söng.
Söngvari ársins var svo valin Valgerður Guðnadóttir fyrir hlutverk sitt í söngleiknum Söngvaseiði í sviðsetningu Leikfélags Reykjavíkur. Hún var að vonum afskaplega glöð með að hljóta Grímuverðlaunin og tók uppá því að jóðla að hætti sannra alparósa.
Engum sögum fer af því hvernig Atla eða Agli leist á jóðlið, eða hvort þeir jóðluðu með í huganum. Ljóst var hinsvegar að Valgerður skemmti sér og áhorfendum konunglega með uppátækinu.
Valgerður þakkaði Magnúsi Geir Þórðarsyni leikhússtjóra Borgarleikhússins og Þórhalli Sigurðssyni leikstjóra sýningarinnar fyrir samstarfið og minntist þess að þegar hún mætti í prufur fyrir sýninguna hafi hún varla komist uppá sviðið, því hún hafi verið kasólétt. Öll börnin í sýningunni hefðu líka verið henni mikill innblástur. Hún sagðist stolt yfir því að hafa hlotið Grímuverðlaunin og hélt svo áfram að brosa sínu breiða og smitandi brosi.
Þær voru smartar vinkonurnar Guðný Halldórsdóttir kvikmyndaleikstjóri og Ragnhildur Gísladóttir söngkona þegar þær stigu á stóra sviðið til að afhenda leikskáldi ársins verðlaunin eftirsóttu.
Leikskáld ársins 2009 er Sigurður Pálsson fyrir leikrit sitt Utan gátta í sviðsetningu Þjóðleikhússins. Að hljóta verðlaunin kom honum á óvart því hann hafði ekki skrifað neina þakkarræðu og þar sem leikskáld treysta ætíð á bundið mál var honum nokkur vandi á höndum.
Sigurður flutti þrátt fyrir þetta veglega þakkarræðu og lýsti því hve mikilvægt er að gagnkvæm þörf sé til staðar við uppsetningu leikverka eigi boðskapur þeirra að komast til skila; þörf leikskáldsins fyrir að skrifa leiktexta og þörf leikaranna fyrir að túlka leiktexta. Hann þakkaði leikurum sýningarinnar fyrir að hafa þessa þörf og hönnuði sýningarinnar fyrir gefandi samstarf en ekki síst vildi hann þakka leikstjóra sýningarinnar sem hann sagði brilljant leikstjóra.
Næst var sýnt brot úr dansverkinu Svanurinn eftir Láru Stefánsdóttur í sviðsetningu Íslenska dansflokksins. Dansarar voru Emilía Benedikta Gísladóttir og Steve Lorenz.
Brotið úr verkinu var hluti af því að heiðra heiðursverðlaunahafa kvöldsins, en hans fyrsta hlutverk á leiksviði var hlutverk svansins í ballettinum Dimmalimm í Þjóðleikhúsinu "fáeinum" árum áður.
Fallegar og táknrænar myndir úr verkinu birtust áhorfendum. Sérstaklega var áhrifamikið, en nokkuð kuldalegt, þegar tók að snjóa á dansarana tvo, fáklædda á beru stóra sviðinu.
Átök og ástríða.
Því næst var sýnt myndband um ævi og störf Helga Tómassonar. Undir myndbandinu stigu á svið kynslóðir dansara, allt frá 5 ára ungum ballerínum uppí 72 ára fyrrverandi dansara. Alls voru samankomnir á sviðinu um 120 dansnemar, dansarar, danskennarar og danshöfundar, núverandi og fyrrverandi. Að lokum stigu dansarar Íslenska dansflokksins á sviðið til að heiðra heiðursverðlaunahafa Leiklistarsambands Íslands 2010, Helga Tómasson, dansara, danshöfund og listdansstjóra San Francisco ballettsins.
Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson steig á svið með hópnum, veitti Helga heiðursverðlaunin og færði honum þakkir frá þjóðinni fyrir framúrskarandi framlag Helga til danslistar, ekki einungis á Íslandi heldur á heimsvísu.
Forseti þakkaði Helga fyrir framúrskarandi ævistarf í þágu danslistarinnar og sagði lífshlaup Helga eitt mesta ævintýri sem íslenskur listamaður hefði upplifað. Forseti sagði, að til þess að skilja hve merk afrek Helga hefðu verið fram til þessa, að vaxa upp sem lítill drengur í Vestmannaeyjum og að vera nú kominn á tind danslistar heimsins, mætti helst líkja því við feril Halldórs Laxness og þá alþjóðlegu viðurkenningu sem hann hlaut með Nóbelsverðlaununum.
Forseti sagði jafnframt að enginn íslenskur sviðslistamaður hefði náð viðlíka árangri og Helgi Tómasson með listsköpun sinni. Gestir í salnum stóðu á fætur og hylltu Helga, einn fremsta danshöfund samtímans.
Í þakkarræðu sinni minntist Helgi þess tíma þegar hann hóf sinn feril sem ungur dansari í Þjóðleikhúsinu. Hann þakkaði kollegunum á sviðinu og í salnum sem og Íslendingum fyrir auðsýndan heiður, en hann sagði það alltaf jafn ánægjulegt að koma heim til Íslands, sýna ný dansverk og hitta ættingja og vini.
Hann rifjaði upp skemmtileg atvik frá því að hann var ungur dansari í Þjóðleikhúsinu og vildi ekki þvælast fyrir stórleikurunum, sem margir voru í salnum þetta kvöld. Hann þakkaði eiginkonu sinni og minntist þess að í ár eru 45 ár síðan þau giftu sig í Reykjavík. Áhorfendur ætluðu ekki að sleppa Helga af sviðinu og var hann klappaður upp undir standandi lófataki.
Jóhann og Edda mættu næst á sviðið með þjóðhátíðarlegt skraut í fánalitunum og sungu lauflétt lag, en aðeins fyrir áhorfendur í salnum, því heima í stofu var horft á auglýsingar.
Næst var sýnt brot úr verkinu Þú ert hér í sviðssetningu Mind Group og Leikfélags Reykjavíkur, en verkið og aðstandendur þess voru tilnefndir til fjölda Grímuverðlauna á hátíðinni.
Verkið er beitt ádeila á nútímasamfélagið og það andrúm sem ríkti í aðdraganda bankahrunsins. Eru textar verksins margir hverjir sóttir beint í fjölmiðla samtímans, ræður fyrirmanna, stjórnmálamanna og viðskiptajöfra.
Kynnar kvöldsins rifjuðu næst upp sín uppáhalds- og draumahlutverk.
Til þess að afhenda karlleikara ársins í aðalhlutverki Grímuverðlaunin, voru mættar á sviðið tvær kynslóðir leikkvenna, þær Guðrún Ásmundsdóttir og Kristín Þóra Haraldsdóttir glæsilegar að vanda og í mikilli sveiflu.
Hlutskarpastur karlleikara í aðalhlutverki að þessu sinni varð Björn Thors fyrir leik sinn í verkinu Vestrinu eina í sviðsetningu Leikfélags Reykjavíkur. Leikstjóri sýningarinnar var Jón Páll Eyjólfsson.
Björn var sáttur og stoltur fyrir heiðurinn. Hann þakkaði kennara sínum úr Hlíðaskóla, Önnu Flosadóttur, sem hafði hvatt nemendur áfram í listsköpun og reynst Birni vel á skólaárunum.
< Fyrri | Næsta > |
---|