FRAMÚRSKARANDI sviðslistamenn eru handhafar Grímunnar - Íslensku leiklistarverðlaunanna árið 2009. Grímuverðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn í Borgarleikhúsinu og í beinni útsendingu Sjónvarpsins þann 16. júní 2009. Alls voru veitt verðlaun í 17 flokkum sviðslista auk heiðursverðlauna Leiklistarsambands Íslands, sem einn helsti listamaður þjóðarinnar, Helgi Tómasson hlaut.
Helgi er einn fremsti og dáðasti dansari og danshöfundur þjóðarinnar og hefur starfað sem listrænn stjórnandi San-Francisco ballettsins í 24 ár. Forseti Íslands veitti Helga verðlaunin en til að heiðra hann voru samankomnar á sviðinu kynslóðir dansara, dansnema, danskennara og fyrrverandi dansara, alls um 120 manns. Áhorfendur stóðu og fætur og hylltu Helga fyrir sérstaklega glæstan feril. Ólafur Ragnar færði honum þakkir frá þjóðinni fyrir einstakt framlag á sviði danslistar, ekki aðeins á Íslandi heldur á heimsvísu.
Sýning ársins var valin leiksýningin Utan gátta eftir Sigurð Pálsson í leikstjórn Kristínar Jóhannesdóttur. Sýningin var frumsýnd í Kassanum í Þjóðleikhúsinu þann 24. október 2008. Kristín hlaut einnig Grímuna fyrir leikstjórn, Sigurður fyrir leikritið, Gretar Reynisson fyrir leikmynd og búninga og Halldór Örn Óskarsson hlaut verðlaunin fyrir lýsinguna í Utan gátta.
Utan gátta hlaut alls sex Grímuverðlaun og slær sýningin þar með met Péturs Gauts frá árinu 2006, en sú sýning hlaut fimm verðlaun. Einnig er þetta í fyrsta sinn sem sýning hlýtur útlitsþrennuna; leikmynd, búninga og lýsingu, auk þess sem sýning hefur ekki áður hlotið þrennuna; sýning ársins, leikstjóri og leikskáld.
SÝNING ÁRSINS
Leiksýningin Utan gátta eftir Sigurð Pálsson í sviðssetningu Þjóðleikhússins. Leikstjórn annaðist Kristín Jóhannesdóttir.
LEIKSKÁLD ÁRSINS
Sigurður Pálsson fyrir leikverkið Utan gátta í sviðssetningu Þjóðleikhússins.
LEIKSTJÓRI ÁRSINS
Kristín Jóhannesdóttir fyrir leikstjórn í leiksýningunni Utan gátta í sviðssetningu Þjóðleikhússins.
LEIKARI ÁRSINS Í AÐALHLUTVERKI
Björn Thors fyrir hlutverk sitt í leiksýningunni Vestrinu eina í sviðssetningu Leikfélags Reykjavíkur.
LEIKKONA ÁRSINS Í AÐALHLUTVERKI
Harpa Arnardóttir fyrir hlutverk sitt í leiksýningunni Steinar í djúpinu í sviðssetningu Lab Loka og Hafnarfjarðarleikhússins.
LEIKARI ÁRSINS Í AUKAHLUTVERKI
Bergur Þór Ingólfsson fyrir hlutverk sitt í leiksýningunni Milljarðamærin snýr aftur í sviðssetningu Leikfélags Reykjavíkur.
LEIKKONA ÁRSINS Í AUKAHLUTVERKI
Birna Hafstein fyrir hlutverk sitt í leiksýningunni Steinar í djúpinu í sviðssetningu Lab Loka og Hafnarfjarðarleikhússins.
LEIKMYND ÁRSINS
Gretar Reynisson fyrir leikmynd í leiksýningunni Utan gátta í sviðssetningu Þjóðleikhússins.
BÚNINGAR ÁRSINS
Gretar Reynisson fyrir búninga í leiksýningunni Utan gátta í sviðssetningu Þjóðleikhússins.
LÝSING ÁRSINS
Halldór Örn Óskarsson fyrir lýsingu í leiksýningunni Utan gátta í sviðssetningu Þjóðleikhússins.
TÓNLIST ÁRSINS
Guðni Franzson fyrir tónlist í leiksýningunni Steinar í djúpinu í sviðssetningu Lab Loka og Hafnarfjarðarleikhússins.
HLJÓÐMYND ÁRSINS
Gísli Galdur Þorgeirsson fyrir hljóðmynd í leiksýningunni Húmanímal í sviðssetningu Mín og vina minna og Hafnarfjarðarleikhússins.
SÖNGVARI ÁRSINS
Valgerður Guðnadóttir fyrir hlutverk sitt í söngleiknum Söngvaseiður í sviðssetningu Leikfélags Reykjavíkur.
DANSARI ÁRSINS
Margrét Bjarnadóttir fyrir hlutverk sitt í leiksýningunni Húmanímal í sviðssetningu Mín og vina minna og Hafnarfjarðarleikhússins.
DANSHÖFUNDUR ÁRSINS
Margrét Bjarnadóttir og Saga Sigurðardóttir fyrir kóreógrafíu í leiksýningunni Húmanímal í sviðssetningu Mín og vina minna og Hafnarfjarðarleikhússins.
BARNASÝNING ÁRSINS
Leiksýningin Bólu-Hjálmar eftir Ármann Guðmundsson, Snæbjörn Ragnarsson, Sævar Sigurgeirsson og Þorgeir Tryggvason í sviðssetningu Stoppleikhópsins. Leikstjórn annaðist Ágústa Skúladóttir.
ÚTVARPSVERK ÁRSINS
Útvarpsleikritið Yfirvofandi eftir Sigtrygg Magnason. Tónlist eftir Úlf Eldjárn. Hljóðsetning Einar Sigurðsson. Leikstjórn annaðist Bergur Þór Ingólfsson.
HEIÐURSVERÐLAUN LEIKLISTARSAMBANDS ÍSLANDS
Dansarinn, danshöfundurinn og listdansstjóri San Francisco-ballettsins Helgi Tómasson fyrir framúrskarandi ævistarf í þágu danslistar.
< Fyrri | Næsta > |
---|