Efnisyfirlit

  • Forsíða
  • Fréttir
  • Um Grímuna
  • Leikárið 2011-12
  • Gagnasafn
  • Um Leiklistarsambandið
  • Skráning sýninga
  • Theatre in Iceland

Samstarfsaðilar

stod2_01

sagafilm_01

Þjóðleikhúsið
Borgarleikhúsið
Leikfélag Akureyrar
Íslenska óperan
Íslenski dansflokkurinn
Sjálfstæðu leikhúsin
Félag íslenskra leikara
Félag leikskálda og handritshöfunda
Félag tæknifólks í rafiðnaði
Útvarpsleikhúsið
Sjónvarpið

Listaháskóli Íslands

leikhus.is

Forsíða Fréttir Grímuhátíðin 2008 í máli og myndum

Grímuhátíðin 2008 í máli og myndum

viagra kaufencialis super active
argaiv1217

Share/Save/Bookmark
DirtyDancing1MYNDARLEG leiklistarverðlaun! Á sjöttu Grímuhátíðinni, sem haldin var föstudaginn 13. júní 2008 í Þjóðleikhúsinu, steig fram á sviðið myndarlegur hópur fólks víðs vegar að úr þjóðlífinu til að afhenda verðlaunin eftirsóttu. Verðlaunahafarnir voru ekki síður glæsilegir þegar þeir veittu Grímunni viðtöku. Kynnar kvöldsins, leikararnir Guðjón Davíð Karlsson og Jóhannes Haukur Jóhannesson, eða Jói og Gói, fóru á kostum og skemmtu gestum með óborganlegum skemmtiatriðum.

Eftirfarandi ljósmyndir tók Sigurjón Ragnar ljósmyndari fyrir Leiklistarsamband Íslands á hátíðarkvöldinu.

Image

Fyrst á sviðið voru þau Tinna Gunnlaugsdóttir þjóðleikhússtjóri og Páll Magnússon útvarpsstjóri sem veittu dansara og danshöfundi ársins Grímuverðlaunin. Eftir að Ungfrú Hollywood hafði verið krýnd í opnunaratriði hátíðarinnar, sem var úr söngleiknum Ástin er diskó - lífið er pönk, birtist parið fyrir aftan glitrandi diskótjald. Tinna notaði tækifærið og bauð Pál velkominn á Stóra svið Þjóðleikhússins. Páll svaraði um hæl, sposkur á svip og bauð Tinnu velkomna í beina útsendingu Ríkissjónvarpsins, sjónvarps allra landsmanna.

Image

Dansari ársins var valin Emilía Benedikta Gísladóttir fyrir hlutverk sitt í danssýningunni Kvart eftir Jo Strömgren í sviðssetningu Íslenska dansflokksins. Sýningin var sýnd á Stóra sviði Borgarleikhússins. Hún þakkaði samstarfsfólki sínu og hvatti áhorfendur til að sækja sýningar Dansflokksins.

Image

Danshöfundur ársins 2008 var síðan valinn norski danshöfundurinn Jo Strömgren fyrir kóreógrafíu í danssýningunni Kvart í sviðssetningu Íslenska dansflokksins. Aðalheiður Halldórsdóttir dansari sem starfaði við sýninguna tók við verðlaununum fyrir hönd Jo Strömgren og sagði að nú þyrfti Jo að standa við það loforð sitt að læra íslensku ef hann mundi hljóta Grímuverðlaun. Jo mun nú ætla sökkva sér í málfræði og beygingar.

Image

Til að afhenda Grímuna í flokknum útvarpsverk ársins, voru mættar á sviðið þær Sigríður Margrét Guðmundsdóttir frá Landnámssetrinu í Borgarnesi og María Sigurðardóttir leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar. Í spjalli sínu minntust þær þeirra fjölmörgu leikara sem starfað hafa hjá Útvarpsleikhúsinu í gegnum árin; í safni Ríkisútvarpsins væri til fjöldi merkilegra hljóðritana sem bæri að varðveita vel. Þær ítrekuðu líka kosti þess að geta kveikt á útvarpinu hvar sem er og hlustað á gott leikrit, jafnvel við prjónaskap eða inní tjaldi uppí sveit. Á myndinni má einnig sjá Viðar Jónsson sviðsstjóra Þjóðleikhússins, en hann hafði umsjón með verðlaunagripunum á hátíðarkvöldinu.

Image

Útvarpsverk ársins var svo valið Besti vinur hundsins eftir Bjarna Jónsson og í leikstjórn hans. Bjarni þakkaði leikhússtjórum Útvarpsleikhússins fyrir að fylgja eftir hugmynd hans að leikverkinu, sem var þríleikur. Tóku 12 leikarar þátt í flutningi verksins. Tónlist var eftir Hall Ingólfsson og hljóðsetningu annaðist Georg Magnússon. Alls komu 13 ný útvarpsverk til álita sem öll voru frumflutt í Útvarpsleikhúsinu á leikárinu.

Image

Bræðurnir Árni Pétur Guðjónsson og Kjartan Guðjónsson voru næstir á svið til að afhenda leikkonu ársins í aukahlutverki Grímuna. Árni Pétur sagði reyndar lítið en brosti þeim mun meira og afsakaði sig síðan með því að hann væri nýbúinn að fá sér bótox í varirnar og ætti erfitt með að tala. Kjartan var ekki eins brosmildur og skammaði bróður sinn fyrir að biðja gestgjafa hátíðarinnar að kynna þá bræður sem tvíburabræður, því þeir væru alls ekki tvíburar þótt margir héldu það. Kjartan var einnig mjög ósáttur við að hafa aldrei verið tilnefndur til Grímuverðlauna og sagði fjölda fólks sýna honum stuðning í verki með því að mótmæla þessu óréttlæti því ef einhver ætti skilið verðlaunin, þá væri það hann. Frekari aðgerða væri að vænta frá almenningi í landinu.

Image

Leikkonan Ilmur Kristjánsdóttir hlaut verðlaunin fyrir hlutverk sitt í leiksýningunni Ívanov í sviðssetningu Þjóðleikhússins. Sýningin var frumsýnd á Stóra sviðinu í janúar 2008 og verður líklega tekin upp aftur í haust. Ilmur var að vonum ánægð með að fá loksins Grímuna eftir fjölda tilnefninga.

Image

Ilmur þakkaði samstarfsfólki í Ívanov og kvikmyndinni Brúðgumanum sem framleidd var samhliða æfingum á verkinu. Hún þakkaði einnig Benedikt Erlingssyni, leikstjóra sýningarinnar Ófögru veröld sem Ilmur starfaði við í fyrra, því hann tók því svo vel þegar hún var ólétt og var sanngjarn við hana á æfingum. Hún hvatti aðra leikstjóra til að gera slíkt hið sama og vera jákvæðir gagnvart óléttum leikkonum, því þær þyrftu jú að fjölga sér eins og aðrir.

Image

Þær hafa leyft yngstu leikhússgestunum að kynnast leikhúsinu með skemmtilegum sýningum um skvísurnar Skoppu og Skrítlu, en voru í þetta sinn mættar á svið Þjóðleikhússins í sínu eigin gervi. Þetta voru leikkonurnar Linda Ásgeirsdóttir og Hrefna Hallgrímsdóttir sem afhentu leikara ársins 2008 í aukahlutverki Grímuverðlaunin. Þær notuðu líka tækifærið og skelltu upp skrautlegum húfum þeirra Skoppu og Skrítlu og mátuðu sig við Stóra sviðið.

Image

Það var svo Ólafur Darri Ólafsson sem hlaut verðlaunin fyrir hlutverk sitt í leiksýningunni Ívanov, en félagi hans og nafni Ólafur Egill Egilsson tók við Grímunni, þar sem Ólafur Darri var erlendis. Ólafur Egill var með sms-skilaboð frá Ólafi Darra með nokkrum góðum hugmyndum að þakkarræðu og sumar af þeim las hann upp við góðar undirtektir hátíðargesta.

Image

Glæsilegir fulltrúar sinna sveitarfélaga voru næst á svið, en það voru þau Ólafur F. Magnússon borgarstjóri í Reykjavík og Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarstjóri á Akureyri. Þau voru mætt með umslögin góðu sem geymdu nöfn þeirra er hlutu verðlaun í flokkunum tónlist ársins og söngvari ársins. Í spjalli sínu ræddu þau mikilvægi þess að tengja saman margar listgreinar og að leikhúsið væri einmitt rétti staðurinn til þess; t.d. gæti góð tónlist í leiksýningu lyft sýningunni og um leið upplifun áhorfenda á hærra plan.

Image

Söngvari ársins var valin Sigrún Pálmadóttir fyrir hlutverk Víólettu í óperunni La Traviata í sviðssetningu Íslensku óperunnar. Óperan var frumsýnd í febrúar 2008 og sýnd fyrir fullu húsi fram á vor. Sigrún var nýkomin frá Þýskalandi þar sem hún starfar við Óperuna í Bonn og þakkaði m.a. Stefáni Baldurssyni óperustjóra fyrir að bjóða sér hlutverkið í La Traviata.

Image

Borgarstjórinn í Reykjavík, Ólafur F. Magnússon hlýðir á tilnefningar í flokknum tónlist ársins 2008 á sviði Þjóðleikhússins. Tilnefningar hlutu Frank Hall fyrir tónlist í Dubbeldusch, hljómsveitin Flís og leikhópurinn
fyrir tónlist í Baðstofunni, KK fyrir tónlist í Fool 4 Love, Lay Low fyrir tónlist í Ökutímum og Nick Cave og Warren Ellis fyrir tónlist í Hamskiptunum. Ekki slæmur hópur tónlistarmanna þetta!

Image

Tónlistarkonan Lay Low hlaut þarnæst Grímuna fyrir tónlistina í leiksýningunni Ökutímum í sviðssetningu Leikfélags Akureyrar. Sýningin var frumsýnd í Rýminu í nóvember 2007 og gekk fyrir fullu húsi stóran hluta leikársins.

Image

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Lay Low þakkaði samstarfsfólki sínu hjá Leikfélagi Akureyrar og sagði það einstaka upplifun fyrir sig sem tónlistarmann að starfa við leiksýningu og svo náið með leikhópnum, en söngkonan stóð á sviðinu og flutti tónlistina á öllum sýningum. Líkur eru á að sýningin fari upp í Borgarleikhúsinu á næsta leikári.

Image

Alþingismennirnir Sigurður Kári Kristjánsson og Katrín Jakobsdóttir skokkuðu neðan af Austurvelli til þess að afhenda Grímuverðlaunin í flokknum barnasýning ársins 2008. Þau minntust þeirra leiksýninga ætlaðar börnum og unglingum sem þau sáu á leikárinu og svo notaði Sigurður Kári tækifærið og óskaði vinkonu sinni Selmu Björnsdóttur til hamingju með afmælið og salurinn tók undir. Selma leikstýrði einmitt söngleiknum Gosa, sem var ein af þeim sýningum sem tilnefndar voru í þessum flokki.

Image

Mikil spenna var í salnum þegar alþingismennirnir opnuðu umslagið og tilkynntu að barnasýning ársins 2008 hefði verið valin leiksýningin Gott kvöld í sviðssetningu Þjóðleikhússins. Veittu verðlaununum viðtöku þau Tinna Gunnlaugsdóttir þjóðleikhússtjóri, Áslaug Jónsdóttir höfundur verksins og Þórhallur Sigurðsson leikstjóri sýningarinnar. Alls komu 16 nýjar barnasýningar til álita sem allar voru frumsýndar á leikárinu. Þórhallur minnti í þakkarræðu sinni á starf Þjóðleikhússins sem sérstaklega er ætlað yngstu kynslóðinni og hefur fengið samastað í nýju leikrými, Kúlunni, sem staðsett er í kjallara gamla íþróttahúss Jóns Þorsteinssonar við Lindargötu.

Image

Magnús Geir Þórðarson var í tveimur hlutverkum á hátíðarkvöldinu; í senn fráfarandi leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar og nýr leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur. Magnús Geir var óvænt truflaður með háværu skammbyssuskoti þegar hann ætlaði að afhenda verðlaunin fyrir leikmynd ársins. Á sviðið voru mættar þrjár persónur úr gamanleikritinu Fló á skinni sem sýnt var fyrir fullu húsi hjá Leikfélagi Akureyrar í vetur. Magnús Geir náði þó fljótlega tökum á aðstæðum og sýndi sterka leikstjórn. Hann lýsti því svo yfir að hann hefði ákveðið að taka Flónna með sér til Reykjavíkur og færa hana upp í Borgarleikhúsinu í haust.

Image

Grímuna fyrir leikmynd ársins hlaut svo Börkur Jónsson fyrir leikmyndina í leiksýningunni Hamskiptunum eftir Franz Kafka í sviðssetningu Lyric Hammersmith, Vesturports og Þjóðleikhússins. Sýningin var upphaflega frumsýnd í Lundúnum en síðar á Stóra sviði Þjóðleikhússins í september 2007. Börkur þakkaði Gísla Erni Garðarssyni sem leikstýrði sýningunni og lék einnig aðalhlutverkið, pöddumanninn Gregor Samsa. Hann þakkaði líka sviðmönnum og starfsmönnum Þjóðleikhússins fyrir að burðast með leikmyndina kvöld eftir kvöld, en leikmyndin var á tveimur hæðum og flókin í uppsetningu.

Image

Næst á sviðið voru þau Þorvaldur Davíð Kristjánsson sem stundar leiklistarnám við Juilliard listaháskólann í New York og Aðalheiður Halldórsdóttir dansari hjá Íslenska dansflokknum. Þau birtust uppúr sviðsgólfinu og voru komin til þess að veita verðlaun fyrir búninga ársins. Fyrst upplýsti Aðalheiður viðstadda að stundum væri reynt að spara þegar kemur að búningum í sýningum Dansflokksins og dansarar stundum lítið klæddir, jafnvel naktir. Ekki fylgdi sögunni hvort Þorvaldur Davíð væri sérstakur áhugamaður um sýningar Dansflokksins, en telja má líklegt að svo verði eftir þessar upplýsingar.

Image

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Höfundur búninga ársins var svo valin María Ólafsdóttir fyrir búningana í söngleiknum Gosa í sviðssetningu Leikfélags Reykjavíkur. Sýningin var frumsýnd haustið 2007 og sýnd fyrir fullu húsi allar helgar fram á vor. Gosi verður svo aftur á Stóra sviðinu í Borgarleikhúsinu haustið 2008. María þakkaði sérstaklega starfsfólkinu á saumastofu leikhússins.

Image

Leikkonurnar myndarlegu Nanna Kristín Magnúsdóttir og Sóley Elíasdóttir mættu svo á sviðið til þess að afhenda verðlaun fyrir lýsingu ársins. Þær spjölluðu við Grímuhátíðargesti um mikilvægi lýsingar í leikhúsinu sem felst í því að varpa ljósi á fallega búninga eða flotta kjóla líkt og þær klæddust einmitt á hátíðinni. Ef engin væri lýsingin væri til lítils að vera að klæða sig upp, því ekkert væri ljósið í myrkrinu. Telja verður líklegt að gestir hafi áttað sig á þessu og þar með mikilvægi ljósanna, þar sem leikkonurnar voru sérlega glæsilega klæddar og því leiðinlegt að verða af þeirri sýn.

Image

Grímuna fyrir lýsingu ársins hlaut ljósameistarinn Páll Ragnarsson fyrir lýsinguna í leiksýningunni Ívanov eftir Anton Tsjekov í sviðssetningu Þjóðleikhússins. Páll þakkaði leikstjóra sýningarinnar, Baltasar Kormáki, sem og leikhópnum fyrir gott samstarf.

Image

Felix Bergsson steig næstur fram á sviðið fyrir hönd Íslensku leiklistarverðlaunanna og þakkaði Baugi Group fyrir mikilvægan stuðning við verðlaunin, en Baugur Group hefur verið aðalstyrktaraðili Grímunnar frá upphafi. Felix tilkynnti síðan hvaða leiksýningar væru sýningar ársins að mati áhorfenda. Fimm efstu sýningarnar voru í stafrófsröð: Fló á skinni, Fool 4 Love, Gosi, La Traviata og Skoppa og Skrítla í söng-leik.

Image

 

 

 

 

 

 

 

 

Leiksýningin Fló á skinni í sviðssetningu Leikfélags Akureyrar varð svo hlutskörpust og hlaut áhorfendaverðlaunin. Sýningin var frumsýnd í Samkomuhúsinu í janúar 2008 og sýnd 70 sinnum fyrir fullu húsi. Sýningin sló þannig öll aðsóknarmet á Akureyri. Valið um áhorfendaverðlaunin fór fram á netinu á heimasíðu Grímunnar griman.is og voru þúsundir þátttakenda. Magnús Geir Þórðarson og María Sigurðardóttir tóku við verðlaununum fyrir hönd þeirra sem störfuðu við sýninguna og þökkuðu starfsfólki Leikfélags Akureyrar vel unnin störf.

Image

Ekki minnkaði stemmningin í Þjóðleikhúsinu þegar fyrrverandi forseti Íslands, Frú Vigdís Finnbogadóttir steig fram á sviðið ásamt Guðjóni Pedersen leikhússstjóra Leikfélags Reykjavíkur. Var þeim vel fagnað af gestum Grímuhátíðarinnar, en eins og kunnugt er, var Vigdís einnig leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur um árabil þegar Leikfélagið hafði aðsetur í gamla Iðnó við Tjörnina. Vigdís var í fagurbleikum jakka og Guðjón í eldrauðum lakkskóm. Undir höndum báru þau umslagið með nafni leikskálds ársins 2008 og ljóst að spennan væri að magnast verulega í salnum. Ræddu þau um mikilvægi þess að vanda vel tungumálið á leiksviðinu og hve góða framtíð íslenskan gæti átt í leikhúsinu, eitthvað sem öll leikskáld þyrftu að muna.

Image

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Sumum kom síðan skemmtilega á óvart að Brynhildur Guðjónsdóttir skyldi vera valin leikskáld ársins fyrir leikverkið sitt Brák í sviðssetningu Söguleikhúss Landnámsseturs í Borgarnesi. Einleikurinn var frumsýndur um áramótin og gekk fyrir fullu húsi fram á vor - og gengur enn. Líklega mundu ekki margir teikna mynd af Brynhildi ef þeir yrðu beðnir um að teikna mynd af leikskáldi - en nú breytist það. Brynhildur þakkaði Landnámssetrinu og leikstjóra sýningarinnar og eiginmanni sínum, Atla Rafni Sigurðarsyni.
Image

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hvort valið kom Brynhildi sjálfri eða hátíðargestum meira á óvart er ekki ljóst; hún var furðu lostin, en að vonum ánægð og hreif áhorfendur með einlægri þakkarræðu þar sem hún upplýsti m.a. að hún væri svolítill orðaperri.

Image

Næstur uppúr sviðsgólfi Þjóðleikhússins steig forseti Íslands Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, sem jafnframt er verndari Grímuverðlaunanna. Hann var léttur í lund og vissulega virðulegur. Ólafur Ragnar var kominn til þess að opinbera þann sviðslistamann er hlyti heiðursverðlaun Leiklistarsambands Íslands árið 2008. Forseti fór yfir sviðið og minntist frumkvöðla er ruddu brautina við listsköpun um miðja síðustu öld, hve framlag þeirra var mikilvægt svo leiðin yrði greiðari þeim sem eftir komu.

Image

Heiðursverðlaun Leiklistarsambands Íslands hlaut að þessu sinni Þuríður Pálsdóttir söngkona, fyrir framúrskarandi ævistarf í þágu sönglistar. Allir áhorfendur í Þjóðleikhúsinu risu á fætur og hylltu þessa ástsælu og glæsilegu listakonu okkar Íslendinga.

Image

Í þakkarræðu sinni minntist Þuríður þeirra frumkvöðla er ruddu brautina í óperuflutningi á Íslandi; margir þeirra hafi verið stríðsflóttamenn en algjör himnasending fyrir sönglífið.

Image

Til þess að afhenda leikkonu ársins í aðalhlutverki Grímuna stukku fram á sviðið þau Jörundur Ragnarsson leikari og Kristbjörg Kjeld leikkona. Þau sögðu áhorfendum litla skemmtilega sögu um hönnuð verðlaunagripsins, Sigurð G. Steinþórsson gullsmíðameistara, en hann starfaði ásamt Kristbjörgu í leikhópnum Grímu fyrir margt löngu; á sjöunda áratug síðustu aldar. Má það svo heita tilviljun, eða jafnvel örlög, að Sigurður hafi mörgum árum síðar valist til þess að smíða Grímuna, en hann sigraði hugmyndasamkeppni um verðlaunagripinn þegar Gríman var fyrst veitt árið 2003.

Image

 

 

 

 

 

 

 

 


Brynhildur Guðjónsdóttir var svo valin leikkona ársins í aðalhlutverki fyrir hlutverk sitt í einleiknum Brák í sviðssetningu Söguleikhúss Landnámsseturs. Brynhildur leikur þar fjölda persóna bæði karla og konur, hunda og ketti, skörunga og þörunga. Hún var ekki síður þakklát í þetta skipti og færði eiginmanninum og leikstjóranum, Atla Rafni Sigurðarsyni meiri þakkir.

Image

Alvarleg, greinilega spennt og verulega smart voru þau Unnur Ösp Stefánsdóttir leikkona og Theodór Júlíusson leikari þegar þau stigu fram á Stóra svið Þjóðleikhússins til þess að veita leikara ársins í aðalhlutverki Grímuverðlaunin. Heyra mátti saumnál detta í salnum þegar þau opnuðu umslagið góða til þess að lesa nafn leikarans.

Image

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

En það var svo Þröstur Leó Gunnarsson sem hlaut heiðurinn að þessu sinni fyrir leik sinn í leiksýningunni Ökutímum í sviðssetningu Leikfélags Akureyrar. Þresti var vel fagnað en hann er alvanur að hljóta Grímuverðlaun.

Image

Næst stigu fram þau Viðar Eggertsson formaður Leiklistarsambands Íslands og Inga Jóna Þórðardóttir formaður Leikfélags Reykjavíkur til þess að afhenda verðlaun fyrir leikstjórn ársins 2008. Í spjalli sínu ræddu þau hlutverk leikstjórans við sviðssetningar; leikstjórinn verði í raun ósýnilegur í eigin listaverki og ef vel tekst til blómstra leikararnir á sviðinu.

Image

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Mikil fagnaðarlæti brutust svo út þegar þau tilkynntu að Kristín Eysteinsdóttir hefði hlotið Grímuna fyrir leikstjórn sína við leiksýninguna Þann ljóta í sviðssetningu Þjóðleikhússins. Sýningin var frumsýnd vorið 2008 á Smíðaverkstæðinu og hlaut einróma lof áhorfenda sem og gagnrýnenda.

Image

Til þess að afhenda aðalverðlaun kvöldsins, Grímuna fyrir sýningu ársins 2008, voru mætt til leiks þau Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra og Randver Þorláksson formaður Félags íslenskra leikara. Þau stigu fram á sviðið af miklu öryggi og héldu salnum í spennitreyju á meðan sýnd voru myndbrot úr þeim sýningum sem tilnefndar voru; Brák eftir Brynhildi Guðjónsdóttur, Dubbeldusch eftir Björn Hlyn Haraldsson, Fool 4 Love eftir Sam Shepard, Hamskiptin eftir Franz Kafka og Ívanov eftir Anton Tsjekov.

Image

Sýning ársins 2008 var svo valin leiksýningin Hamskiptin eftir Franz Kafka í leikstjórn David Farr og Gísla Arnar Garðarssonar og í sviðssetningu Lyric Hammersmith, Vesturports og Þjóðleikhússins. Börkur Jónsson höfundur leikmyndar sýningarinnar tók við Grímunni og las bréf frá Gísla Erni sem jafnframt lék aðalhlutverkið, en Gísli var erlendis.

< Fyrri   Næsta >
Gríman - Íslensku sviðslistaverðlaunin   |   Tjarnarbíó   |   Tjarnargötu 12   |   101 Reykjavík   |   griman@griman.is

©2006-2011 Hringbrot