Heiðursverðlaun Leiklistarsambands Íslands árið 2008 hlaut Þuríður Pálsdóttir söngkona, fyrir framúrskarandi ævistarf í þágu sönglistar. Forseti Íslands veitti Þuríði verðlaunin og viðstaddir stóðu á fætur í troðfullu Þjóðleikhúsinu og hylltu þessa miklu listakonu okkar Íslendinga. Ólafur Ragnar færði henni þakkir frá þjóðinni fyrir einstakt og stórkostlegt framlag til lista. Þuríður hefur einnig látið til sín taka á vettvangi stjórnmála og gegndi margvíslegum trúnaðarstörfum á löngum og farsælum ferli.
Í þakkarræðu sinni minntist Þuríður þeirra frumkvöðla er ruddu brautina í óperuflutningi á Íslandi; margir þeirra hafi verið stríðsflóttamenn en algjör himnasending fyrir sönglífið.
- - - - - -
Hún fæddist 11. mars 1927. Viðstödd fæðinguna voru aðeins mamma og pabbi því ljósmóðirin mætti of seint. Eða kannski var það barnið sem kom fyrr en búist var við? Hún lærði list sína á Ítalíu hjá einum besta kennara landsins. Árið 1952 tókst hún á við sitt fyrsta verkefni, en það var hlutverk Gildu í Rigoletto í Bergamo á Ítalíu. Seinna sama ár söng hún sitt fyrsta óperuhlutverk á íslensku leiksviði; Moniku í Miðlinum eftir Menotti.
Á glæstum ferli átti hún eftir að syngja allar helstu perlur óperunnar; Leonoru í Il Trovatore, Paminu í Töfraflautunni, Rósínu í Rakaranum í Sevilla, Michaelu í Carmen og Musettu í La Bohem. Gagnrýnandi einn sagði um hlutverk hennar í La Bohem að hún væri fegursta Musetta sem hann hefði séð og þegar við fegurð þessarar ungu söngkonu bættist mjög fögur rödd og leiklist, full af lífi og suðrænu “temperamenti”, þá ættu íslenskir leikhússgestir að þakka himnunum fyrir að hafa eignast þessa afbragðs sönglistakonu.
Árið 1978 tók hún þátt í stofnun Íslensku óperunnar og sviðsetti fyrstu sýninguna, I Pagliacci. Fimmtíu og sjö ára að aldri söng hún sitt síðasta hlutverk, en það var svikarinn Flóra í Miðlinum og eins og hún segir sjálf: “Þannig var hringnum lokað!”. En hún tók að sér fleira en óperuhlutverk, til dæmis einsöng í óratóríum og síðast en ekki síst flutti hún ljóðatónlist við fjölmörg tilefni. Hún sat í Þjóðleikhússráði í 21 ár eða frá árinu 1978 til '99. Þar af var hún formaður í 16 ár. Hún var yfirkennari Söngskólans í tæp 30 ár og kenndi söng, tónfræði og tónlistarsögu. Margir helstu söngvarar landsins voru hennar nemendur og hún menntaði fjölmarga söngkennara sem nú kenna um allt land.
Heiðursverðlaun Leiklistarsambands Íslands árið 2008 hlýtur Þuríður Pálsdóttir, söngkona.
Edda Þórarinsdóttir
< Fyrri | Næsta > |
---|